Innlent

Froskafár í Garðabæ

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Froskarnir eru agnarsmáir og reyna heimilsmennirnir nú hvað þeir geta til að bjarga þeim.
Froskarnir eru agnarsmáir og reyna heimilsmennirnir nú hvað þeir geta til að bjarga þeim. Karen Kjartansdóttir
Karen Kjartansdóttir, íbúi við Melás í Garðabæ, vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið í kvöld þegar börn hennar færðu henni frosk sem þau höfðu fundið í garðinum. Þegar hún grennslaðist betur fyrir komu fjölmargir froskar í ljós - í og við húsið.

Þegar Vísir heyrði í Karen nú á áttunda tímanum var mikill hamagangur á heimilinu; húskötturinn Dimma var í óðaönn við að veiða froskana og börnin reyndu hvað þau gátu til að bjarga þeim frá því að lenda í klóm kattarins.

Þannig var búið að koma einum froskinum fyrir í baðkarinu - ekki ósvipað og gert var við fiskana forðum í Sódóma Reykjavík.

Karen áætlar að þetta hljóti að vera í fyrsta skipti sem froskar finnist í Garðabænum, í það minnsta í Melás þar sem fjölskyldan er til húsa. „Þetta hlýtur að vera fyrsta alíslenska froskakynið,“ segir Karen hlæjandi. 

Þó svo að hún kunni engar skýringar á þessum nýju nágrönnum útskýrir hún að skammt frá húsi fjölskyldunnar séu tveir gróðurvaxnir garðar. Í öðrum þeirra megi finna tjörn og þó hún vilji ekki slá því föstu að froskarnir kunni að koma þaðan þá þyki henni það þó líklegt.

Hún áætlar að um 10 froskar séu nú í og við húsið og eftir að Karen birti mynd af froskunum á Facebook-síðu sinni þyrptust nágrannar þeirra í heimsókn til að líta á dýrin.

Færslu hennar má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×