Enski boltinn

Gylfi tekur við treyju Barry og verður númer átján hjá Everton

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson
Gylfi Þór Sigurðsson Mynd/Heimasíða Everton
Gylfi Þór Sigurðsson verður í treyju númer 18 hjá Everton en þetta kemur fram á heimasíðu félagsins í kvöld. Þetta er nýtt númer fyrir íslenska landsliðsmanninn sem hefur ekki spilað i þessu númeri áður.

Everton kynnti Gylfa sem nýjan leikmann félagsins á samfélagsmiðlum sínum um kvöldmatarleytið en Everton hefur aldrei borgað meira fyrir einn leikmann.

Gylfi tekur við treyjunúmeri Gareth Barry sem var seldur í gær til West Bromwich Albion. Barry var búinn að spila í númer átján hjá Everton undanfarin fjögur tímabil.





Gylfi hefur spilað síðustu þrjú tímabil í treyju númer 23 hjá Swansea City en þar áður var hann í treyju númer 22 hjá Tottenham.

Írinn Seamus Coleman spilar í treyju númer 23 hjá Everton og það númer var því ekki laust.

Hollenski markvörðurinn Maarten Stekelenburg er síðan númer 22 og sú treyja var heldur ekki laus.  

Þegar Gylfi kom fyrst til Swansea þá var hann númer 42 en hann spilaði síðan í treyju númer 11 hjá þýska félaginu TSG 1899 Hoffenheim og og var síðan bæði í númer 8 og 25 hjá Reading.

Gylfi spilaði að lokum í treyju númer 38 hjá Crewe Alexandra og í treyju númer 29 hjá Shrewsbury Town.

Wayne Rooney var síðan búinn að taka tíuna sem Gylfi spilar í með íslenska landsliðinu.








Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×