Innlent

Íslendingur gefur út handgerða bók með framleiðendum Rick and Morty

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Opna úr bókinni, The Crawling King.
Opna úr bókinni, The Crawling King. Mynd/Einar Baldvin
Einar Baldvin Árnason teiknimyndagerðarmaður vinnur nú að útgáfu skáldsögunnar The Crawling King í samstarfi við Starburns Industries, framleiðendur geysivinsælu teiknimyndaþáttanna Rick and Morty og Anomalisa, kvikmyndar Charlie Kaufman.

The Crawling King er að sögn Einars Baldvins safn hryllingssagna sem eiga það sameiginlegt að gerast í sömu uppskálduðu borginni.

Útgefendur safna nú fé til að fjármagna prentun bókarinnar á hópfjármögnunarsíðunni Kickstarter en bókin er öll handskrifuð og handteiknuð. Þegar Fréttablaðið fór í prentun í gær höfðu um 900.000 krónur safnast.

Einar Baldvin Árnason, teiknimyndagerðarmaður.Mynd/Einar Baldvin
Að sögn Einars Baldvins er hugmyndin að baki bókinni sú að hver einasta síða líkist með því fornleifum frá borginni sjálfri og hefur vinnan við gerð bókarinnar tekið um tvö ár.

„Ég var búinn að vera að hugsa lauslega um að gera teiknimyndaseríu þar sem hver þáttur væri ein hryllingssaga, ótengdar sögur en með svipaða stemningu,“ segir Einar Baldvin. Hann hafði á þeim tíma verið nýbúinn að gera teiknimyndina The Pride of Strathmoor og sýnt þeim hjá Starburns Industries myndina. Það hafi vakið áhuga á frekara samstarfi.

„Við fórum síðan að spjalla um hvernig væri hægt að tengja sögurnar saman. Þetta voru sjónvarpsþáttahandrit á þessu stigi, þrjár sögur sem gerðust allar í nútímanum eða að minnsta kosti í einhverskonar óræðri nútíð. Ég fékk þá hugmynd að endurskrifa þær þannig þær gerðust allar á sama stað, í gjöreyðilagðri miðaldaborg og þær myndu fjalla um það sem gerðist fyrir og eftir eyðilegginguna og þar af leiðandi fullkomlega tengdar hver annarri.“

Á sama tíma var Starburns Industries að setja saman bókaútgáfudeild innan fyrirtækisins og var ákveðið að fullkomið yrði að breyta hugmyndinni í bók. „Bókin er eins og handrita og bréfasafn, þannig að fólk getur lesið um borgina eins og um eiginlega heimild sé að ræða. Hún er því safn af þjóðsögum, bréfum og dagbókum úr þessari ímynduðu borg, eins og um alvöru stað væri að ræða.“

Einar Baldvin segir þó að í ljósi þess að bókin sé handskrifuð standi ekki til að þýða hana á íslensku, en hún verður gefin út á ensku. „Það er eiginlega ómögulegt, að minnsta kosti án þess að missa vitið algjörlega.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×