Íslenski boltinn

Sjö vikur frá síðasta deildarsigri Stjörnukvenna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Ásbjörnsdóttir er fyrirliði Stjörnunnar.
Katrín Ásbjörnsdóttir er fyrirliði Stjörnunnar. Vísir/Ernir
Íslandsmeistarar Stjörnunnar hafa ekki unnið leik í Pepsi-deild kvenna í fótbolta í 47 daga og það verður að breytast í kvöld ætli Garðabæjarliðið að ógna Þór/KA eitthvað í baráttunni um titilinn í ár.

Jafntefli á móti Grindavík og ÍBV á heimavelli í síðustu tveimur leikjum hafa eyðilagt mikið fyrir titilvörn Stjörnuliðsins og um leið gefið norðankonum meira andrými á toppnum. Það kom sér vel fyrir Þór/KA liðið sem komst upp með það að gera jafntefli á heimavelli á móti Fylki í fyrsta leik eftir EM. Þór/KA er með fimm stiga forskot á Stjörnuna fyrir leiki kvöldsins og á einnig leik til góða. Þór/KA heimsækir botnlið Hauka á sama tíma og Stjarnan fær Valskonur í heimsókn.

Ef það hefur einhvern tíma verið leikur upp á líf og dauða fyrir Íslandsmeistaravonir Stjörnunnar í ár þá er það leikurinn í kvöld sem verður sýndur beint á Stöð 2 Sport og hefst klukkan 19.15. Stjarnan vann síðast leik í Pepsi-deildinni 1. júlí síðastliðinn.

Valsliðið er þegar svo gott sem búið að binda enda á meistaravonir Blika með 2-0 sigri í fyrsta leik liðanna eftir EM. Valskonur mæta líka í hefndarhug eftir 1-0 tap í framlengdum undanúrslitaleik liðanna í Borgunarbikarnum fyrir aðeins fjórum dögum en sigurmarkið kom á 117. mínútu leiksins.

Eftir leikinn í kvöld eru aðeins tólf stig eftir í pottinum fyrir Stjörnuna og fari allt á versta veg þá gæti Þór/KA verið komið með átta stiga forskot á Garðbæinga. Framundan er bæði Evrópukeppni og bikarúrslit en ætli Stjörnuliðið að vera með í titilbaráttunni þarf liðið nauðsynlega sigur í Garðabænum í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×