Erlent

Sagði hvíta þjóðernissinna minnipokamenn og „samansafn af trúðum“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Framtíð Steve Bannon, eins helsta ráðgjafa Donalds Trump Bandaríkjaforseta, er óljós.
Framtíð Steve Bannon, eins helsta ráðgjafa Donalds Trump Bandaríkjaforseta, er óljós. Vísir/AFP
Steve Bannon, einn helsti ráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta, sagði hvíta þjóðernissinna vera „samansafn af trúðum“ í viðtali við The American Prospect sem kom út í gær. Ummælin eru höfð eftir Bannon í kjölfar óeirðanna í Virginíu um síðustu helgi þar sem til átaka kom milli hvítra þjóðernissinna og gagnmótmælenda.

Bannon stýrði eitt sinn Breitbart News, fréttamiðli sem kenndur hefur við bandarísku stjórnmálahreyfinguna „hitt hægrið“ (e. alt-right). Breitbart hefur gjarnan verið talinn eitt helsta málgagn hvítra þjóðernissinna og gegndi enn fremur lykilhlutverki í sigri Trump í forsetakosningunum í fyrra.

„Þjóðernishyggja sem byggir á kynþáttum, þeir eru minnipokamenn,“ sagði Bannon um þjóðernissinnanna sem stóðu að óeirðunum um helgina. „Þetta er jaðarafl. Ég held að fjölmiðlar geri of mikið úr þessu, og við verðum að hjálpast að við að jafna þá við jörðu, þú veist, hjálpa til við að jafna þá enn frekar við jörðu.“

„Þessir gaurar eru samansafn af trúðum,“ bætti Bannon við.

Örlög Bannon enn óljós

Framtíð Bannon í Hvíta húsinu er „óljós“, að því er Trump staðfesti á óvenjulegum blaðamannafundi í New York-borg í vikunni. „Við sjáum til,“ sagði Trump enn fremur um áframhaldandi veru Bannon í Hvíta húsinu.

Fréttir herma að Trump hafi verið hvattur til að reka Bannon, sem hefur haft greiðan aðgang að forsetanum í ráðgjafastarfi sínu. Þá hefur áhrifa hans gætt í stórum ákvörðunum ríkisstjórnarinnar, til að mynda þeirri ákvörðun Hvíta hússins að draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu, að því er fram kemur í frétt BBC.

Þá hefur Trump verið harðlega gagnrýndur fyrir að kenna báðum fylkingum, þjóðernissinnum og gagnmótmælendum, um óeirðirnar í Charlottesville í Virginíu. Þar kom til átaka um helgina er hvítir þjóðernissinnar mótmæltu því að stytta af Robert E. Lee, hershöfðingja Suðurríkjanna í þræla­stríði Bandaríkjanna, yrði fjarlægð.

Sjá einnig: Tekist á um tákn sundraðrar fortíðar

Hin 32 ára Heather Heyer lést í átökunum, er ökumaður sem talinn er aðhyllast hugmyndafræði þjóðernissinna, keyrði á hana. Minningarathöfn um Heyer var haldin í Charlottesville í gær.

Í viðtalinu við The American Prospect snerti Bannon einnig á málefnum Norður-Kóreu, Kína og inannbúðarmálum í Hvíta húsinu. Hann sagði meðal annars að engin hernaðarlausn væri til við hinni norður-kóresku kjarnorkuógn og að hann ætti í innanhúsbardaga við ríkisstjórnina varðandi viðskiptastefnu Bandaríkjanna gagnvart Kína.


Tengdar fréttir

Lítið sem ekkert gert til að græða sár Repúblikana

Gjáin á milli Bandaríkjaforseta og samflokksmanna hans heldur áfram að breikka. Repúblikanar reiðast forsetanum fyrir að segja að öfgaþjóðernissinnar beri ekki fulla ábyrgð á óeirðunum í Charlottesville.

Repúblikanar andæfa fordómum og Trump forseta

Margir háttsettir repúblikanar hafa gagnrýnt furðuleg ummæli Donalds Trump forseta um óeirðirnar í Charlottesville í gær. Helstu leiðtogar þeirra hafa þó hikað við að beina spjótum sínum beint að forsetanum.

Myndasyrpa frá átökunum í Charlottesville

Þegar hópar þjóðernissinna sem komu saman í Charlottesville í Bandaríkjunum mættu gagnmótmælendum um helgina kom fljótt til átaka þeirra á milli.

„Rasismi er af hinu illa“

Donald Trump Bandaríkjaforseti tjáði sig um átök þjóðernissinna og gagnmótmælenda í Virginíu-ríki um helgina á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í dag.

Varg- og vígöld í Virginíu-ríki

Hópi þjóðernissinna og andstæðinga þeirra laust saman í Charlottesville í Virginíu um helgina. Neyðarástandi lýst yfir í borginni. Minnst einn lést.

Fyrr­ver­and­i kenn­ar­i ök­u­manns­ins seg­ir hann dá Hitl­er

James Alex Fields hefur verið ákærður, meðal annars fyrir morð, fyrir að aka bíl sínum inn í hóp fólks sem var að mótmæla samkomu þjóðernissinna vegna fyrirhugaðs niðurrifs styttu af Robert E. Lee, hershöfðinga Suðurríkjanna í þrælastríði Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×