Erlent

Tíu ára indversk stúlka fæðir barn nauðgara síns

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Indland á sér langa sögu kynferðisofbeldis gegn konum. Myndin er frá mótmælum vegna nauðgunar á 24 ára gamalli konu í almenningsgarði í Nýju-Delí í febrúar síðastliðinn.
Indland á sér langa sögu kynferðisofbeldis gegn konum. Myndin er frá mótmælum vegna nauðgunar á 24 ára gamalli konu í almenningsgarði í Nýju-Delí í febrúar síðastliðinn. Vísir/AFP
Tíu ára indversk stúlka, sem varð ólétt eftir nauðgara sinn og í kjölfarið neitað um fóstureyðingu, hefur fætt stúlkubarn.

Hæstiréttur Indlands neitaði stúlkunni um fóstureyðingu í síðasta mánuði, að því er fram kemur í frétt BBC. Stúlkan er ekki meðvituð um að hún hafi fætt barnið en það var tekið með keisaraskurði. Þá var stúlkan heldur ekki meðvituð um að hún gengi með barn en henni var sagt að hún væri með stóran stein í maganum og þess vegna væri hann svo útstæður.

Barn stúlkunnar kom í heiminn í Chandigarh á Indlandi rétt fyrir fjögur í nótt að íslenskum tíma. Líðan móður og barns er góð, að sögn embættismanns á svæðinu.

Frændi stúlkunnar er sagður hafa nauðgað henni ítrekað síðustu sjö mánuði en hann hefur verið handtekinn.

Ekki er nema mánuður síðan uppgötvað var að stúlkan væri þunguð. Hún hafði kvartað undan magaverkjum og foreldrar hennar fóru í kjölfarið með hana á sjúkrahús.

Hæstiréttur Indlands neitaði stúlkunni um fóstureyðingu á grundvelli þess að hún væri of langt gengin með barnið. Nefnd lækna sagði fóstureyðingu á þessu stigi þungunar „of áhættusama.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×