Erlent

Hvarf Kim Wall: Lögreglan í Danmörku segist leita að líki

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Síðast sást til sænsku blaðakonunnar Kim Wall fimmtudaginn 10. ágúst. Ekkert hefur spurst til hennar síðan.
Síðast sást til sænsku blaðakonunnar Kim Wall fimmtudaginn 10. ágúst. Ekkert hefur spurst til hennar síðan. Vísir/EPA

Lögreglan í Danmörku gerir nú ráð fyrir að sænska blaðakonan Kim Wall sé látin og að henni hafi verið kastað í sjó. Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar til fjölmiðla. 

„Ég get ekki sagt mikið,“ sagði lögreglustjórinn Jens Møller Jensen í samtali við danska ríkisútvarpið.

„En við byggjum á þeim forsendum að við séum að leita að látinni manneskju í svæðinu í kringum Køge, bæði í danskri og sænskri lögsögu.“

Kim Wall hefur ekki sést frá því á fimmtudaginn í síðustu viku. Hún fór í kafbátasiglingu með danska auðkýfingnum Peter Madsen í þeim tilgangi að skrifa um kafbátinn og siglinguna. Madsen neitar því að hafa orðið Wall að bana en hann er nú í gæsluvarðhaldi vegna málsins.

Bátum sökkt af ásettu ráði

Lík Wall fannst ekki í kafbátnum þar sem leitað var á sunnudag.

Kærasti Wall tilkynnti hvarf hennar þegar hún skilaði sér ekki úr ferðinni. Þegar samband náðist við Madsen í gegnum talstöð sagðist hann vera á leið aftur til hafnar. Hins vegar sökk báturinn í Køgesundi á föstudaginn. Madsen var bjargað en Wall hefur ekki fundist.

Samkvæmt SVT sagði Madsen að hann hefði hleypt Wall í land í Kaupmannahöfn á fimmtudagskvöldinu. Seinna mun hann þó hafa breytt sögu sinni og gefið lögreglu aðra útskýringu.

Lögreglan hefur sagst hafa ástæðu til að halda að bátnum hafi verið sökkt af ásettu ráði.


Tengdar fréttir

Brotlending hins danska Geimflauga-Madsen

Danski uppfinningamaðurinn Peter Madsen er mjög þekktur maður í Danmörku. Sú staðreynd að hann sitji nú í gæsluvarðhaldi vegna hvarfs sænsku blaðakonunnar Kim Wall hefur vakið gríðarlega athygli í heimalandi hans og raunar um heim allan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×