Erlent

Malala fær inngöngu í Oxford

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Malala Yousafzai er nú orðin 20 ára gömul.
Malala Yousafzai er nú orðin 20 ára gömul. Vísir/Getty
Nóbelsverðlaunahafinn Malala Yousafzai hefur hlotið inngöngu í Oxford háskóla. Hún tilkynnti þetta á Twitter síðu sinni og óskaði öllum þeim nemendum til hamingju sem fengu niðurstöður sínar úr A prófum í dag.

Malala hyggst nema heimspeki, stjórnmálafræði og hagfræði við hinn sögufræga skóla. Hún er yngsti einstaklingurinn til að hreppa friðarverðlaun Nóbels.

Malala er fædd í Pakistan þann 12. júlí 1997. Hún ólst upp í héraði Pakistan sem Talíbanar stjórnuðu en þeir bönnuðu stúlkum að sækja nám. Árið 2009 hóf Malala að skrifa á bloggsíðu fyrir BBC undir dulnefni. Þar lýsti hún lífi sínu undir stjórn Talíbana og fjallaði um að auka réttindi stúlkna til menntunnar. Vegna skrifa sinna hótuðu Talíbanar að drepa hana og föður hennar.

Þann 9. október 2012 sat hún í skólarútu í heimabæ sínum, Mingora, og var á leið heim úr skólanum sem faðir hennar stofnaði. Þá gekk maður um borð og spurði hana hvort hún héti Malala. Því svaraði hún játandi. Maðurinn dró upp byssu og skaut hana í höfuðið.

Hún hefur haldið baráttu sinni áfram og árið 2013 nefndi Time hana sem eina af hundrað áhrifamestu einstaklingum heimsins. Einnig hefur hún gefið út bókina: „Ég er Malala: Stúlkan sem stóð upp fyrir menntun og var skotin af Talíbönum.“


Tengdar fréttir

Malala dúxaði

Yngsta friðarverðlaunahafa Nóbels gekk einstaklega vel á lokaprófum sínum.

Malala gefur verðlaunafé til uppbyggingar á Gaza

Malala Yousafzai hyggst gefa 50.000 Bandaríkjadali til Sameinuðu þjóðanna svo byggja megi upp skóla á Gazaströndinni sem eyðilögðust í stríði Ísraels og Palestínu fyrr á árinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×