Enski boltinn

Henry vill að Englandsbikarinn verði nefndur eftir Ferguson

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sir Alex Ferguson lyfti þessum bikar 13 sinnum.
Sir Alex Ferguson lyfti þessum bikar 13 sinnum. vísir/getty
Thierry Henry vill að bikarinn sem sigurlið ensku úrvalsdeildarinnar fær verði nefndur eftir Sir Alex Ferguson.

Henry lýsti þessari skoðun sinni yfir í sérstökum þætti á Sky Sports vegna 25 ára afmælis ensku úrvalsdeildarinnar.

Ferguson er lang sigursælasti knattspyrnustjórinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar en Manchester United varð 13 sinnum Englandsmeistari undir hans stjórn.

„Þegar ég hitti hann í fyrsta sinn kallaði ég hann herra enska úrvalsdeildin. Þrettán titlar, það er ótrúlegt. Bikarinn ætti að bera nafn hans. Fólk gæti verið ósammála mér og ég er ekki stuðningsmaður Manchester United. En 13 titlar? Það er of mikið,“ sagði Henry sem fagnar 40 ára afmæli sínu í dag.

Til gamans má geta að Super Bowl-bikarinn í NFL-deildinni í Bandaríkjunum var á sínum tíma nefndur eftir Vince Lompardi, sem gerði Green Bay Packers að margföldum meisturum á sjöunda áratug síðustu aldar.

Frakkinn varð sjálfur Englandsmeistari með Arsenal 2002 og 2004. Í seinna skiptið fór Arsenal ósigrað í gegnum alla 38 leikina í ensku úrvalsdeildinni.

Henry varð tvívegis Englandsmeistari með Arsenal.vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×