Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan 1 - 2 Valur | Stjarnan missir af tækifæri til að saxa á forskot Þórs/KA

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Elín Metta Jensen skoraði bæði mörk Vals í kvöld
Elín Metta Jensen skoraði bæði mörk Vals í kvöld vísir/ernir
Valskonur ná hefndum gegn Stjörnunni og fara með 1-2 sigur af hólmi í annari viðureign liðanna á fimm dögum. Liðin mættust í lokaleik 13. umferðar Pepsi deildar kvenna á Samsungvellinum í Garðabæ í kvöld.

Elín Metta Jensen skoraði bæði mörk Valskvenna í seinni hálfleik, eftir frekar bragðdaufan fyrri hálfleik.

Leikurinn var mun fjörmeiri en bikarleikurinn á sunnudaginn og var ljóst á spilamennsku liðanna að minna var í húfi, þó að bæði lið vildu að sjálfsögðu ná í þrjú stig.

Stjarnan komst í dauðafæri á 21. mínútu leiksins þegar Sandra Sigurðardóttir varði meistaralega frá Katrínu Ásbjörnsdóttir, frákastið féll fyrir fæturna á Öglu Maríu Albertsdóttur en Málfríður Erna Sigurðardóttir kastaði sér fyrir skot Öglu Maríu og bjargaði Valskonum fyrir horn. Sannkallaður landsliðsbragur á þessu augnabliki leiksins.

Valur fékk nokkur færi í fyrri hálfleik en náðu aldrei að ógna Gemmu Fay mikið í marki Stjörnunnar. Stjarnan var meira með boltann en Valskonur lágu til baka og beittu skyndisóknum.

Sama var uppi á kantinum í seinni hálfleik, Stjarnan var mikið meira með boltann, en þær voru ekki mikið að skapa sér dauðafæri.

Það var svo á 69. mínútu leiksins þegar fyrirliði Vals, Elín Metta, braut ísinn og skoraði glæsilegt mark. Agla María á misheppnaða tilraun að hreinsun sem berst á kollinn á Laufey Bjarnadóttur. Hún skallar boltann á Elínu Mettu sem snýr af sér tvo varnarmenn Stjörnunnar á markteigslínunni og rennir boltanum í markið.

Eftir markið var lítið um færi og leit út fyrir að Valskonur væru að sigla sigrinum heim. En á 90. mínútu þá rífur Kim Dolstra í Ariana Calderon inni í eigin vítateig og dómari leiksins, Jóhann Ingi Jónsson, gat ekki annað en dæmt víti. Elín Metta fór á punktinn og skoraði af öryggi.

Næst síðasta snerting leiksins var svo skalli frá Ana Victoria Cate sem náði að lauma boltanum inn fyrir Söndru Sigurðardóttir og í netið, sárabótamark fyrir Stjörnuna sem gerði þeim þó ósköp lítið. Lokatölur 1-2.

Afhverju vann Valur?

Þær nýttu sér varnarmistök Stjörnunnar og gæði Elínar Mettu kláruðu færið og skiluðu markinu sem veitti þeim sigurinn. Leikurinn hefði getað dottið hvoru megin sem var, þó Stjarnan væri meira með boltann þá sköpuðu þær sér ekki mörg færi. Valskonur vörðust vel og náðu að nýta sér eitt af færum sínum.

Seinna markið innsiglaði svo sigurinn, en Stjarnan hafði ekkert ógnað fram að því. Mark Stjörnunnar má svo kannski skrifa á það að leikurinn var að renna út og því var einbeitingarleysi í vörn Valskvenna.

Hverjar stóðu upp úr?

Guðmunda Brynja Óladóttir var best heimakvenna í dag. Hún var í raun sú eina sem náði að skapa eitthvað af færum fyrir Stjörnuna í dag, fór oft illa með Thelmu Björk Einarsdóttur sem reyndi að verjast henni. Lára Kristín Pedersen átti fínan leik sem og Katrín Ásbjörnsdóttir sem skilar alltaf sínu fyrir liðið.

Hjá Val var Elín Metta Jensen dugleg að venju. Ariana Calderon stóð sig einnig vel á miðjunni og var varnarlínan í heildina nokkuð góð í kvöld.

Hvað gekk illa?

Stjarnan fór illa með nokkur fín færi og náði ekki að skapa sér mikið af afgerandi dauðafærum. Guðmunda var dugleg að koma með fyrirgjafir en oft vantaði að einhvern inni í teig til að fylgja þeim eftir.

Valskonur voru frekar hægar í sínum sóknaraðgerðum mestan hluta leiksins, þegar þær ætluðu að beita skyndisóknum vantaði oft rauðar treyjur með í sóknarleikinn.

Hvað gerist næst?

Stjarnan er á leið út til Króatíu þar sem þær eiga leik í undankeppni Meistaradeildar Evrópu á þriðjudaginn. Stjarnan mætir liði KÍ frá Færeyjum í fyrsta leik E riðils.

Valur á næsta leik í Pepsi deildinni gegn Fylki á heimavelli á miðvikudaginn.

Úlfur Blandon er þjálfari Valsvísir/ernir
Úlfur Blandon: Gríðarleg vinna og skipulögð frammistaða

„Mjög sáttur. Við sóttum þessi stig, ætluðum að koma hingað og ná í þrjú stig. Þegar það tekst þá er maður glaður,“ sagði Úlfur Blandon, þjálfari Vals, eftir leikinn.

„Mér finnst alltaf gaman að vinna, eftir tapleiki gæti það verið mögulega eitthvað sætara. Mér fannst við leggja gríðarlega mikla vinnu á okkur í dag og feikilega ánægður með þennan sigur.“

Úlfur var sáttur með frammistöðu liðsins í kvöld „Við vorum skipulagðar og gerðum þetta vel, hjálpuðum hvor annari. Skoruðum tvö frábær mörk svo ég er glaður.“

„Tíu þúsundasta skipti sem ég er spurður að þessari spurningu,“ sagði Úlfur og hlær aðspurður hvort Valur geti eitthvað blandað sér í toppbaráttuna. „Við erum á eftir þessum liðum og ætlum að sækja okkur þau stig sem eftir eru. Ef það skilar okkur eitthvað hærra í töflunni þá verð ég glaður með það, en við tökum einn leik í einu.“

Ólafur Þór Guðbjörnsson, þjálfari Stjörnunnar
Ólafur Þór: Óskiljanleg ákvörðun hjá dómurunum.

Þjálfari Stjörnunnar, Ólafur Þór Guðbjörnsson, var ekki eins ánægður eftir leikinn í kvöld. „Vonbrigði að hafa ekki klárað þennan leik. Mér fannst frammistaðan heilt yfir þokkalega góð. Við pressuðum vel og mér fannst ágætis kraftur í liðinu miðað við hvað er stutt síðan við spiluðum síðast.“

„Við leystum varnarleik Vals ekki nógu vel og sköpuðum ekki nógu mikið af opnum færum til þess að klára þetta. Við fengum eitt upphlaup og þetta víti sem var vafasamt, en alveg sama, þær kláruðu sitt og lágu í vörn.“

Í aðdraganda vítaspyrnudómsins hefði mátt dæma aukaspyrnu á Ariönu fyrir brot á Gemmu Fay í marki Stjörnunnar og var Ólafur hreint ekki sáttur með dómarana í því atviki og vildi meina að einnig hafi Ariana brotið á Kim Dolstra.

„Það var alveg klárt að það var hangið í henni í töluverðan tíma og þetta er óskiljanleg ákvörðun hjá dómurunum. En þeir dæma leikinn og vonandi horfa þeir bara á vídeó og læra af því. En við áttum bara að vera búnar að leysa þetta fyrr og klára færin okkar.“

Titilvonir Stjörnunnar eru orðnar dræmar eftir að Þór/KA vann sinn leik í kvöld og auk forystu sína í átta stig. „Burt séð frá því ætlum við að klára okkar leiki, en það þarf himin og jörð að fara til að Þór/KA klúðri þessu, því miður.“

Elín Metta Jensen
Elín Metta: Gott að svara fyrir síðasta leik

„Virkilega skemmtilegt að ná þremur stigum hér í dag og svara fyrir síðasta leik,“ sagði Elín Metta Jensen, fyrirliði og markaskorari Vals.

„Mér fannst við standa okkur mjög vel. Við vorum þéttar og agaðar í því sem við vorum að gera. Við nýttum færin okkar í þessum leik sem að skilaði sér.“

Elín Metta bar fyrirliðabandið í þriðja leiknum í röð og líður vel í því hlutverki. „Mér finnst þetta bara skemmtilegt. Þetta er svolítið skref fyrir mig, þroskandi og gaman.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira