Innlent

Verklag eftir alvarleg atvik verði skýrara

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Heilbrigðisráðherra ætlar í haust að leggja fram tvö frumvörp sem eiga að skýra viðbrögð og verklag á sjúkrastofnunum þegar alvarleg atvik koma upp. Hann segir nauðsynlegt að læra af reynslunni.

Frumvörpin varða breytingar á lögum um landlækni og lýðheilsu annars vegar og lög um dánarvottorð hins vegar. Heilbrigðisráðherra segir að í grunninn séu frumvörpin viðbrögð við reynslunni af óskýru verklagi í kjölfar alvarlegra atvika á spítalanum.

„Það verða skýrari vinnureglur ef að hlutir koma upp. Það gerir það þá auðveldara að bregðast við og rannsaka hvað fer úrskeiðis til þess að læra af því," segir Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra.

Frumvörpin eru unnin á grunni skýrslu starfshóps um alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu en ráðherra segir nauðsynlegt að gæta þess að heilbrigðisstarfsfólk þori að tjá sig um það sem farið hafi úrskeiðis. 

„Að það myndist ekki óöryggi eða hræðsla við að það sé ekki óhætt að upplýsa eða skoða hlutina í grunninn," segir hann.

Í skýrslunni er áréttað mikilvægi þess að starfsfólk sem gefur upplýsingar til rannsóknar geti treyst því að þær verði einungis notaðar í þeim tilgangi. Þær komi því ekki sök á fólkið og verði ekki raktar til þess.Ráðherra segir að verið sé að skoða þetta atriði í samvinnu við dómsmálaráðuneytið.

„Eitt af verkefnunum þar er samvinna við dómsmálaráðuneytið um að skoða refsilöggjöfina út frá nákvæmlega þessu. Að það sé skýrt hver staða starfsfólksins sé og það sé skýrt að hlutirnir komi upp á yfirborðið, verði skoðaðir faglega og að við séum með skýrar reglur og lög um það," segir Óttarr Proppé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×