Innlent

Fötluð ungmenni mæta í hálftómt frístundaheimili

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Kletturinn flytur í varnalægt húsnæði í Smyrlahrauni.
Kletturinn flytur í varnalægt húsnæði í Smyrlahrauni. vísir/anton brink
Starf frístundaheimilis fyrir fötluð börn og unglinga í Hafnarfirði hefst eftir helgi þrátt fyrir að þar vanti ýmsan nauðsynlegan húsbúnað og leikföng. Forstöðumaður frístundaheimilisins fékk skömm í hattinn fyrir að auglýsa eftir húsgögnum og öðru dóti fyrir bæinn á eigin vegum.  

„Þetta er svolítið lýsandi dæmi um það hvernig er tekið á málaflokknum í bænum,“ segir Gunnar Axel Axelsson, oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn. Gunnar segir ólíðandi að starfsemi eigi að hefjast eftir helgi og húsið standi að mestu tómt.

Gunnar Axel Axelsson, oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn
Forstöðumanninum, Guðbjörgu Magnúsdóttur, var tjáð að það bryti gegn innkaupastefnu Hafnarfjarðarbæjar að einstakir starfsmenn kaupi inn vörur fyrir bæinn á eigin vegum. Frístundaklúbburinn Kletturinn býður upp á tómstundir fyrir fötluð börn og unglinga í 5.-10. bekk eftir að hefðbundnu skólahaldi lýkur. Kletturinn hefur samnýtt húsnæði með vinnuskóla bæjarins þannig að heimilið hefur flutt út yfir sumartímann. Nú á það hins vegar að flytja í varanlegt húsnæði í Smyrlahrauni.

Starfsemi á að hefjast á næstu dögum en ýmislegt vantar í húsnæðið til að hægt sé að hefja leik. Forstöðumaður Klettsins auglýsti því á Facebook-síðu sinni eftir ísskáp, sófa, stólum og ýmissi afþreyingu í heimilið.

„Þarna var um að ræða frumkvæði starfsmanns sem er góðra gjalda vert. Hún hafði gert þetta áður hjá Reykjavíkurborg en þetta samræmist ekki vinnureglum hjá bænum,“ segir Guðlaug Kristjánsdóttir, forseti bæjarstjórnar. Hún segir málið í farvegi en tekur fram að öllum sé heimilt að gefa heimilinu húsgögn eða leikföng. Einstakir starfsmenn megi aftur á móti samkvæmt reglum ekki auglýsa eftir slíku. Unnið sé að kostnaðaráætlun til að unnt sé að tryggja að aðbúnaður verði við hæfi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×