Innlent

Sjálfstæðiskonur gagnrýna leiðtogakjör

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Valhöll.
Valhöll. Vísir/Pjetur
Arndís Kristjánsdóttir, formaður Hvatar, félags Sjálfstæðiskvenna í Reykjavík, gagnrýnir boðað leiðtogakjör flokksins fyrir sveitarstjórnarkosningar á næsta ári. Verði tillagan um leiðtogakjör samþykkt munu flokksmenn velja þann sem leiðir lista flokksins, en uppstillingarnefnd mun hins vegar raða í önnur sæti. Skiptar skoðanir eru meðal Sjálfstæðismanna um þessa leið. „Þessi tillögugerð er því fráleit í ljósi þeirrar þróunar sem nú stendur yfir í stjórnmálum og hún er til þess fallin að skaða Sjálfstæðisflokkinn í bráð og lengd. Aukin aðkoma almennings og aukið lýðræði eru lykilhugtök í stjórnmálum þessa dagana,“ ritar Arndís í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag.

Arndís segir að flokkar sem ekki þróast með samtíma sínum og tíðaranda séu í mikilli hættu. Það sé því furðulegt að þrengja eigi aðkomu almennra flokksmanna að vali á framboðslistann. „Þessi tillaga færir Sjálfstæðisflokkinn áratugi aftur í tímann, frá fólkinu í átt að klíku- og fámennisstjórnmálum.“

Þannig sé nauðsynlegt að lögð verði fram rök fyrir því að þessi leið verði farin. „Ef Sjálfstæðisflokkurinn treystir ekki eigin félagsmönnum, fólkinu sem myndar Sjálfstæðisflokkinn, hversu líklegt er þá að almenningur treysti Sjálfstæðisflokknum?“ spyr Arndís. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×