Innlent

Efnt til samkeppni um nýja mynd á Sjávarútvegshúsið

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Myndin af sjómanninum fór ekki framhjá neinum sem ók eftir Sæbraut í austurátt.
Myndin af sjómanninum fór ekki framhjá neinum sem ók eftir Sæbraut í austurátt. Vísir/Vilhelm
„Ég vil mynd á vegginn,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdótttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem undirbýr nú samkeppni um nýja mynd á vegg Sjávarútvegshússins í stað sjómannsmyndarinnar sem málað var yfir á dögunum.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Ráðherrar ráðuneytanna í húsinu, þær Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ætla að skipa fimm manna dómnefnd til að velja viðeigandi mynd á vegg hússins. Hugmyndin hefur verið rædd meðal þeirra sem í húsinu eru og allir eru sammála um að vegginn skuli prýða mynd sem fellur að starfsemi hússins líkt og hin horfna mynd gerði. 

„Við eigum eftir að forma þetta aðeins betur. Ég er með ákveðna hugmynd en við munum líka ráðfæra okkur aðeins við SÍM, Samband íslenskra myndlistarmanna, um formið á þessu. Ég held að þetta verði bara skemmtilegt.“ 

Aðspurð segir Þorgerður ekkert mæla gegn því að sama mynd eða mynd eftir sama listamann fari aftur á vegginn. „Það getur verið þessi sama, það getur verið einhver önnur, það yrði bara dómnefndarinnar að meta og auðvitað átta sig á því hvaða mynd misbýður ekki sómakennd nágrannanna.“ 


Tengdar fréttir

Sjómenn vilja láta mála Hjörleif á vegginn

Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, "er ekki sáttur“ við að myndin af sjómanninum á austurvegg Sjávarútvegshússins við Skúlagötu 4 sé horfinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×