Leik lokið: Burnley 0 - 1 West Brom | Burnley tapa á heimavelli | Önnur úrslit úr ensku úrvalsdeildinni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði Burnley.
Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði Burnley. Vísir/Getty
Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði Burnley sem tapaði 0-1 fyrir West Bromwich Albion á heimavelli í dag.

Jóhann Berg átti hættulegasta færi fyrri hálfleiks þegar hann skaut framhjá markinu á 30. mínútu. Honum var skipt útaf á 78. mínútu fyrir Ashley Barnes.

Burnley var sterkari aðilinn á Turf Moor í dag, en glæsilegt mark frá Hal Robson-Kanu á 71. mínútu kom í veg fyrir að Burnley fengi stig út úr leiknum. Robson-Kanu fékk svo að líta rauða spjaldið á 83. mínútu leiksins fyrir brot á Matt Lowton.

Það fóru fjórir aðrir leikir fram núna klukkan 14:00. Watford fór með 0-2 sigur á Bournemouth. Mörkin komu frá Richarlison á 73. mínútu og Etienne Capoue á 86. mínútu.

Leicester City vann einnig 2-0 sigur þegar þeir fengu nýliða Brighton & Hove Albion í heimsókn. Shinji Okazaki skoraði strax á fyrstu mínútu fyrir Leicester þegar hann potar frákasti af skoti Riyad Mahrez í markið af stuttu færi.

Harry Maguire skoraði seinna mark Leicester eftir hornspyrnu á 54. mínútu.

Southampton sigraði West Ham 3-2 á heimavelli sínum. Manolo Gabbadini skoraði fyrsta markið á 10. mínútu. Heimamenn fengu víti á 37. mínútu sem Dusan Tadic setti í markið, en Joe Hart var nálægt því að verja frá honum.

West Ham náði að klóra í bakkann undir lok fyrri hálfleiks þegar Chicarito skoraði á 44. mínútu. Hann bætti svo við öðru marki sínu á 73. mínútu og jafnaði leikinn.

Það stefndi allt í jafntefli þegar Charlie Austin stal sigrinum fyrir Southampton með marki í uppbótartíma.

Liverpool náði sér í fyrsta sigur tímabilsins þegar liðið vann Crystal Palace 1-0 á heimavelli.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira