Innlent

Fulltrúi veiðifélaga gekk út af fundi þegar skrifa átti undir stefnumótun um fiskeldi

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Fulltrúi Landssambands veiðifélaga gekk af fundi án þess að skrifa undir stefnumótun um fiskeldi sem skila átti í dag. Ástæðan var vegna bókunar sem fulltrúar fiskeldisstöðva settu fram í stefnumótuninni og gekk gegn samkomulagi sem deiluaðilar höfðu áður gert með sér.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði starfshópinn fyrr á þessu ári meðal annars vegna þess að fiskeldi hefur verið ört vaxandi atvinnugrein og mikilvægt er að skilyrði og umgjörð um greinina séu eins og best verður á kosið og í sem mestri sátt við umhverfið. Við stefnumótunina var horft til annarra landa sem hafa náð góðum árangri í þessari grein en hlutirnir voru skoðaðir út frá eldi í sjó og á landi.

Hópurinn átti að ljúka vinnu sinni eigi síðar en 30. júní sl. en ráðherra framlengdi frestinn fram í miðjan ágúst.

Starfshópurinn sem Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði fundaði í Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu í dag en stefnt var að því að undirrita tillögur hópsins. Fréttastofu var meinað að mynda upphaf fundarins þar sem viðræður um tillögurnar voru á viðkvæmu stigi.

Samkvæmt öruggum heimildum fréttastofu gekk fulltrúi Landssambands veiðifélaga af fundinum í dag án þess að skrifa undir vegna bókunar sem fulltrúar Landssamband fiskeldisstöðva settu inn í stefnumótunina.

„Já, það er rétt. Ég gerði það. Ástæðan var sú að það kom fram bókun sem að við gátum ekki sætt okkur við, við veiðiréttareigendur frá fiskeldismönnum. Þessi bókun var þess eðlis að hún rímaði ekki við það sem við vorum búnir að fallast á í nefndinni,“ segir Óðinn Sigþórsson, fulltrúi Landssamband veiðifélaga í starfshópi um stefnumótun í fiskeldi.

Hlutirnir gerðust hratt nú síðdegis því boðað til annars fundar þar sem stjórn Landssamband fiskeldisstöðva drógu bókunina til baka. Mættu allir fulltrúar aftur í ráðuneytið á fjórða tímanum og skrifuðu undir stefnumótunina.

„Ég held að þessi niðurstaða sé til þess fallin að skapa traust á milli manna og ég er nokkuð bjartsýnn á framhaldið,“ segir Óðinn.

Stefnumótunin verður nú afhent sjávarútvegsráðherra sem kemur til með að kynna hana í ríkisstjórn á næstu dögum.




Tengdar fréttir

Áhættumat

Nefnd sem vinnur að stefnumótun í fiskeldi mun skila af sér tillögum um miðjan mánuðinn. Í framhaldinu mun sjávarútvegsráðherra kynna þær í ríkisstjórn og fyrir atvinnuvega- og umhverfisnefnd þingsins. Í störfum sínum hefur nefndin víða leitað fanga.

Segir erfðablöndun ekki tengjast starfandi fiskeldisstöðvum

Formaður landssambands fiskeldisstöðva segir að það þurfi verulegt magn af eldisfiski að sleppa yfir langan tíma til að erfðablöndun verði. Hann hvetur menn til að hætta með ásakanir á víxl og styðjast við mælingar og vísindi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×