Fótbolti

Falcao fær Mónakó-fólk til að gleyma Mbappé

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Radamel Falcao fagnar marki.
Radamel Falcao fagnar marki. Vísir/EPA
Ungstirnið Kylian Mbappé hefur enn ekki spilað með Mónakó-liðinu á tímabilinu en það skiptir ekki máli því gamli refurinn Radamel Falcao sér til þess að öll stigin koma í hús.

Kólumbíumaðurinn Radamel Falcao skoraði eina markið í 1-0 sigri Mónakó á útivelli á móti Metz.

Mónakó setti nýtt met í kvöld því þetta var fimmtándi sigurleikur liðsins í röð. Liðið vann tólf síðustu leik sína á síðustu leiktíð og svo fyrstu þrjá leikina á þessu tímabili.

Falcao hefur þar með skorað fimm af átta mörkum Mónakó-liðsins í fyrst þremur umferðum tímabilsins en liðið hefur unnið þá alla.

Hinn 31 árs gamli Falcao skoraði í 3-2 sigri á Toulouse í fyrstu umferðinni og svo þrennu í 4-1 sigri á Dijon um síðustu helgi.

Kylian Mbappé hefur enn ekki spilað með Mónakó-liðinu en risarnir Real Madrid og Paris Saint Germain hafa verið á eftir þessum stórefnilega sóknarmanni í allt sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×