Innlent

Forsetinn hleypur 21 kílómetra fyrir Pieta

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Guðni Th. hvetur þá sem geta látið fé af hendi rakna að styðja við bakið á góðgerðarsamtökunum.
Guðni Th. hvetur þá sem geta látið fé af hendi rakna að styðja við bakið á góðgerðarsamtökunum. Vísir
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, mun hlaupa hálft maraþon í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka sem fram fer á morgun. Mun forsetinn hlaupa til styrktar Pieta-samtökunum á Íslandi sem hyggjast stofna úrræði fyrir einstaklinga í sjálfsvígshugleiðingum og þá sem stunda sjálfsskaða.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Guðni tekur þátt í hlaupinu en í fyrra hljóp hann fyrir Hollvini Grensáss. Hann hljóp kílómetrana 21 á rúmlega einni klukkustund og 42 mínútum.

Forsetinn hvatta alla fylgjendur sína á Facebook í kvöld, sem geta látið fé af hendi rakna, til þess að heita á hlaupara og styðja þau fjölmörgu góðgerðarsamtök sem þeir safna fé fyrir.

Forsetinn er þó ekki sjálfur skráður á síðuna Hlaupastyrkur.is sem hlaupari fyrir Pieta-samtökin. Því biður hann þá sem vilja styrkja samtökin að „að heita bara á aðra hlaupara - af fjölmörgu góðu fólki er að taka!“ segir forsetinn á Facebook.

Alls hafa hlauparnir 80, sem hlaupa fyrir Pieta, safnað rúmlega 2 milljónum króna fyrir samtökin. Þar af hefur lögmaðurinn Sveinn Andri Sveinsson safnaði mestu eða rúmlega 220 þúsund krónum þegar þetta er skrifað. Næstur á eftir honum kemur Adel Brimir Aronsson með um 140 þúsund krónur.

Söfnunarsíðu Pieta-samtakanna má nálgast hér.

Fyrstu hlaupararnir leggja af stað klukkan 08:40 í fyrramálið. Vísir verður með beina útsendingu frá ræsingunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×