Innlent

Fékk hvorki vott né þurrt í 14 klukkustundir

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Maðurinn var handtekinn í Leifsstöð í nótt, sakaður um að framvísa fölsuðum skilríkjum. Kristrún segir hann hafa upplifað sig sem stórfelldan glæpamann.
Maðurinn var handtekinn í Leifsstöð í nótt, sakaður um að framvísa fölsuðum skilríkjum. Kristrún segir hann hafa upplifað sig sem stórfelldan glæpamann. Vísir/Eyþór
Ungur maður sem handtekinn var við millilendingu í Keflavík í nótt á leið sinni til Bretlands fékk hvorki vott né þurrt meðan hann var í haldi lögreglunnar á Suðurnesjum. Maðurinn var handtekinn, grunaður um að hafa framvísað fölsuðum skilríkjum, klukkan 04:30 í Leifsstöð og var haldið í fangaklefa fram yfir skýrslutöku sem lauk á sjöunda tímanum í kvöld.

Allan þann tíma, eða í næstum 14 klukkustundir, fékk maðurinn ekkert að borða né drekka, að frátöldu einu vatnsglasi sem lögmaður mannsins, Kristrún Elsa Harðardóttir, færði honum um klukkan 16 í dag. Hún segir borðlegggjandi að maðurinn hafi sætt ómannúðlegri meðferð meðan hann var í haldi lögreglunnar og brotið hafi verið á mannréttindum hans, sem og meðalhófsreglu.

Kristrún segir í samtali við Vísi að þegar hún hafi komist á snoðir um mál mannsins seinni partinn í dag hafi hún látið lögreglumennina sem tóku á móti henni á Suðurnesjum vita að maðurinn væri aðframkominn af hungri. Ekkert hafi þó verið gert fyrir manninn, lögreglumennirnir sögðust ekki þekkja til málsins enda nýkomnir á vakt og bentu hver á næsta mann.

Ætlaði ekki að sækja um hæli

Eftir skýrslutökuna, og eftir að hafa gengið manna á milli og beðið um mat fyrir manninn, er henni tjáð að maðurinn hafi sótt um hæli á Íslandi. Hann væri því ekki lengur handtekinn heldur mál hans komið inn á borð Útlendingastofnunnar. Lögreglan hafi því ekki talið sig þurfa að útvega honum mat, enda mál mannsins ekki lengur á þeirra könnu.

Kristrún Elsa Harðardóttir, lögfræðingur mannsins, segir hann hafa verið aðframkominn þegar henni var gert viðvart um mál hans.
Kristrún segir að það hafi komið sér á óvart enda hafi maðurinn ekki ætlað sér að sækja um hæli hér upphaflega. Hann var á leiðinni til Bretlands í þeim erindagjörðum.

Maðurinn bauðst að sögn Kristrúnar ítrekað til að stíga aftur upp í næstu flugvél og fara aftur þaðan sem hann kom - „en hann áttaði sig ekki á því hversu hart er tekið á þessum málum hérna á Íslandi og að hann gæti mögulega lent í fangelsi,“ segir Kristún.

Það sé ekki í boði, hann verði að vera hér á landi í þær 2 til 4 vikur sem málið er til rannsóknar hjá lögreglu. Verði maðurinn fundinn sekur má hann búast við því að vera dæmdur í 30 daga fangelsi og sitja inni í 15 daga. 

Kristrún ákvað að fara þess á leit við Reykjanesbæ að manninum yrði komið til aðstoðar, hann væri vannærður og allslaus og hefði í engin hús að venda. Þar hafi hún þó komið að lokuðum dyrum enda klukkan orðin 16 og búið að loka bæjarskrifstofunum.

Manninum hefur nú verið gert að halda sig inni á tilteknu svæði, samkvæmt nýju ákvæði í Útlendingalögum, en Kristrún telur ekki heimild í því ákvæði til að takmarka ferðafrelsi manna við ákveðið svæði. Til þess þurfi maðurinn annað hvort að vera hættulegur eða að það liggi ekki ljóst fyrir hver maðurinn sé. Hvorugt eigi við í tilfelli þessa manns, hann hafi ekki sýnt af sér neina ofbeldisfulla hegðun og þá var hann með vegabréf í fórum sínum sem var ekki falsað, að sögn Kristrúnar. „Það liggur alveg fyrir hver þetta er.“ 

Vegabréfið hans í haldi

Hún mun leita til dómstóla og reyna að fá þessum úrskurði hnekkt. Þá hafi hún óskað eftir því að maðurinn fengi aftur vegabréfið sitt þar sem ekki er búið að úrskurða hann í farbann. Því hafi hins vegar verið hafnað „því vegabréfið var í haldi lögreglu til rannsóknar.“

Maðurinn var í haldi lögreglunnar á Suðurnesjum í 14 tíma.Vísir/Vilhelm
Kristrún telur þá meðferð sem maðurinn hefur mátt þola síðastliðinn sólarhring stangast „klárlega“ á við 3. grein Mannréttindasáttmála Evrópu þar sem segir að enginn maður skuli sæta ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

Maðurinn hafi verið hræddur og ekki skilið hvers vegna komið væri fram hann eins og stórfelldan glæpamann. Hann hafi verið færður í handjárn og sett á hann magabelti sem handjárnin hafi verið fest við. Hann hafi upplifað sig sem ofbeldismann, „en hann var þó eingöngu sakaður um að framvísa fölsuðum skilríkjum,“ segir Kristrún.

„Ég er reið og döpur að horfa upp á svona meðferð á fólki, brot á mannréttindum og meðalhófsreglu. Er það svona sem við viljum koma fram við fólk sem annað hvort er á leið hingað eða kemur hér við á leið sinni að betra lífi eða skjóli? Það vill ég a.m.k. ekki og ég vona að fleiri séu sammála mér,“ segir Kristrún.

„Það þarf að skoða verklagið hjá lögreglunni á Suðurnesjum og viðmót lögreglumanna gagnvart þeirra skjólstæðingum. Það sem ég varð vitni að í dag er algerlega óásættanlegt!“ bætir Kristrún við í færslu á Facebook sem hún skrifaði nú í kvöld.

Þegar Vísir leitaði viðbragða hjá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum bárust þau svör að málið væri á borði rannsóknardeildar og að svör við fyrirspurn um málið fengjust ekki fyrr en eftir helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×