Innlent

Menningarnótt: Bongóblíða og viðburður á hverju horni

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Allskonar viðburðir hafa verið haldnir á miðsvæði borgarinnar í dag. Talsverður mannfjöldi nýtur blíðunnar og menningarinnar.
Allskonar viðburðir hafa verið haldnir á miðsvæði borgarinnar í dag. Talsverður mannfjöldi nýtur blíðunnar og menningarinnar. Berghildur
Mikill fjöldi lagði leið sína í bæinn í dag en Menningarnótt stendur nú sem hæst. Berghildur Erla Bernharðsdóttir, kynningastjóri Höfuðborgarstofu, segir í samtali við Vísi að allt hafi gengið eins og í sögu og stemmningin hafi verið algjörlega frábær. Þá hefur veðrið spilað stórt hlutverk í dag enda sannkölluð bongóblíða sem lék við mannskapinn.

„Það er náttúrulega viðburður á hverju götuhorni og tónleikar út um allt,“ segir Berghildur í samtali við Vísi. Dagskráin í ár er afar fjölbreytt og hafa gestir hátíðarinnar um margt að velja, til að mynda var fjölmennt á karíókí skemmtun tvíeykisins Hits and Tits og steig þar almenningur á Svið. Þá var einnig ansi fjölmennt í Hörpunni en þar getur fólk farið á tónleika meðal annars með Sinfóníuhljómsveitinni eða hlustað á ljúfa jass tóna.

Menningarnætursvæðið hefur stækkað töluvert frá því sem var þegar hátíðin hóf göngu sína árið 1996. Berghildur segir að stærð svæðisins skipti sköpum fyrir allan mannfjöldann. Berghildur segir svæðið vera stærra en það hefur verið undanfarið. Hátíðin stendur yfir hjá Veröld Vigdísar, í Mathöllinni á Hlemmi, á Klambratúni, á Granda og svo auðvitað í miðbænum sjálfum.

„Hátíðarsvæðið er stórt þannig að mannfjöldinn er mikill í bænum en þetta dreifist vel,“ segir Berghildur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×