Innlent

Grundvallarprinsipp almennt meðhöndluð af léttúð

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Björt baðst í gær afsökunar á dómgreindarleysi sínu.
Björt baðst í gær afsökunar á dómgreindarleysi sínu. vísir/stefán
Það vantar í íslenska menningu að fólk segi af sér ef það gerir glappaskot. Þetta er mat formanns Gagnsæis – samtaka gegn spillingu. Hann segir einnig unnt að heimfæra háttalag umhverfis- og auðlindaráðherra undir bæði siðareglur ráðherra og þingmanna.

Í Fréttablaðinu í gær var rætt við Helga Bernódusson, skrifstofustjóra Alþingis, um mynd sem birtist af Björt Ólafsdóttur í kjól frá tískufyrirtækinu Galvan. Myndin birtist á Instagram-síðum Bjartar og Galvan en var fjarlægð af síðu fyrirtækisins í gær. Í máli Helga kom fram að myndin væri óvenjuleg en strangt til tekið ekki brot á reglum.

„Ég sýndi dómgreinarleysi með því að flögra um þingsalinn stolt af þeirri hönnun sem ég stóð í og stolt yfir að vera kona í því hlutverki sem ég er og að leyfa mér að upphefja kvenleikann inni í þingsal sem svo ljósmyndari festi á filmu. Þau skilaboð eru fólki greinilega ekki efst í huga og þessi uppsetning því vanhugsuð því hún tengir við einkafyrirtæki,“ sagði Björt á Facebook í gær. Hún baðst afsökunar á því að hafa misboðið fólki með myndinni. Þá tók hún fram að hún hefði keypt kjólinn sjálf.

„Það er frekar augljóst að það eru nokkrar reglur í siðareglum alþingismanna og ráðherra sem hægt væri að benda á að þetta stangist við,“ segir Jón Ólafsson, formaður Gagnsæis. Jón fór einnig fyrir nefnd sem hélt utan um gerð siðareglnanna.

Jón bendir á að hingað til, þegar mál áþekk þessu hafa komið upp, hafi viðbrögð embættismanna verið léttvæg. Hann nefnir einnig að þegar slík mál koma upp í nágrannalöndum okkar nægi klaufagangur sem þessi til afsagnar.

„Grundvallarspurningin er: Hvers á almenningur að vænta frá kjörnum fulltrúum? Það er sama hvað ráðherra eða þingmaður gerir, fólk verður alltaf að hafa í huga að það sé ekki að hygla einhverjum sérstökum. Það verður að tryggja að enginn geti sakað það um að það starfi fyrir einhvern annan en almenning. Þetta er grundvallarprinsipp,“ segir Jón.

„Ráðherra getur ekki leyft sér að hjálpa vinum sínum með störfum sínum sem ráðherra. Þarna er þingmaður og ráðherra að láta taka mynd af sér í þingsalnum til að hjálpa ákveðnum aðila,“ segir Jón.


Tengdar fréttir

Aldrei ætlunin að nota myndirnar til að selja kjóla

Tilgangurinn með myndum af Björtu Ólafsdóttur umhverfisráðherra í kjól frá Galvan London í þingsal var aldrei að selja kjóla "út í hinum stóra heimi,“ samkvæmt yfirlýsingu frá fyrirtækinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×