Erlent

Bók á leiðinni frá James Comey

Kjartan Kjartansson skrifar
James Comey getur líklega sagt margar áhugaverðar sögur.
James Comey getur líklega sagt margar áhugaverðar sögur. Vísir/Getty
Frásagnir sem ekki hafa heyrst áður eru á meðal þess sem mun koma fram í bók sem James Comey, fyrrverandi forstjóri alríkislögreglunnar FBI sem Donald Trump forseti rak úr starfi, er að skrifa.

Viðfangsefni bókarinnar á að vera stjórnun og ákvarðanatökur, að sögn Flatiron Books, útgefanda Comey. Breska ríkisútvarpið BBC segir að til standi að bókin komi út næsta vor en að hún hafi enn ekki hlotið neinn titil.

Margir hafa eflaust áhuga á að heyra sögurnar sem Comey hefur að segja. Sem forstjóri FBI hefur hann komið við sögu í nokkrum stærstu málunum sem hafa valdið straumhvörfum í bandarískum stjórnmálum síðustu misserin.

Þannig var hann yfir rannsókninni á tölvupóstum Hillary Clinton frá þeim tíma þegar hún var utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Comey ákvað upphaflega að gefa ekki út neinar ákærur vegna þeirra en gagnrýndi þó að Clinton hefði notast við eigin póstþjón til að senda pósta sem vörðuðu embættisfærslur hennar.

Þrándur í Götu bæði Clinton og Trump

Þegar aðeins örfáir dagar voru til forsetakosninganna síðasta haust varpaði Comey svo sprengju inn í kosningabaráttuna þegar hann greindi frá því að FBI hefði aftur opnað rannsóknina á tölvupóstum Clinton. Ekkert frekar kom út úr þeirri skoðun en uppákoman er jafnvel talin hafa kostað Clinton sigur í kosningunum.

Eftir að Donald Trump tók við sem forseti reyndi hann að fá Comey til að sverja sér hollustu sína og bað hann um að láta rannsókn á bandamanni sínum falla niður.

Síðar rak Trump Comey og sagði það hafa verið vegna rannsóknar FBI á meintu samráði framboðs hans við Rússa.


Tengdar fréttir

Trump segist vera til rannsóknar fyrir að hafa rekið Comey

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, fór á Twitter fyrr í dag og staðfesti það að hann væri til rannsóknar vegna brottvikningar James Comey, fyrrverandi forstjóra Bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, úr embætti.

Trump tjáir sig um vitnisburð Comey eftir langa þögn

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, stóðst freistinguna og tísti ekkert á meðan James Comey, fyrrverandi forstjóri FBI, svaraði spurningum njósnamálanefndar Bandaríkjaþings í gær um samskipti hans við Trump. Hann er þó mættur aftur á Twitter.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×