Innlent

Sveitarstjórnarmenn segja ekkert hlustað á íbúa á norðanverðum Vestfjörðum

Heimir Már Pétursson skrifar
Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri á Ísafirði, segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með fundinn með nefndinni.
Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri á Ísafirði, segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með fundinn með nefndinni. Vísir/Pjetur
Sveitarstjórnarmenn á norðanverðum Vestfjörðum urðu fyrir miklum vonbrigðum með fund sem þeir áttu með nefnd um stefnumótun í fiskeldismálum í vikunni. Þeir telja að nefndin ætli sér ekki að taka tillit til hagsmuna íbúa á svæðinu og ekki sé hægt að búast við að hún leggi fram stefnumótun í fiskeldismálum.

Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, skipaði nefnd um stefnumótun í fiskeldismálum sem tók til starfa í fyrra haust. Sveitarstjórnarmenn á Ísafirði, í Bolungarvík og Súðavík segja í sameiginlegri yfirlýsingu í gærkvöldi að þessi sveitarfélög hafi haft lítið að segja af þessari nefnd fyrir utan spurningarlista snemma á þessu ári sem hafi meira og minna miðað við þau sveitarfélög á sunnanverðum Vestfjörðum þar sem fiskeldi væri þegar hafið.

Fyrir tilstuðlan Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sjávarútvegsráðherra hafi sveitarstjórnarmenn á norðanverðum Vestfjörðum fyrst fengið fund með nefndinni síðastliðinn þriðjudag, en á fundi í byrjun júlí hafi ráðherrann undrast að nefndin hafði ekki haft samband við stjórnendur þessara sveitarfélaga. Nefndin á að skila af sér tillögum hinn 15. ágúst.

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri á Ísafirði, segir hann, bæjarstjórann í Bolungarvík og sveitarstjóra Súðavíkurhrepps vægast sagt hafa orðið fyrir vonbrigðum með fundinn með nefndinni.

„Við áttum von á að þessi stefnumótandi nefnd í fiskeldi væri að vinna þetta eins og títt er um stefnumótun. Að kanna alla hagsmuni, leiða þá saman og búa til framtíðarsýn um hvernig við nálgumst fiskeldi í landinu,“ segir Gísli Halldór.

Það býr fólk en ekki bara laxar við Ísafjarðardjúp

Hins vegar hafi menn upplifað fundinn með þeim hætti að nefndin ætlaði að koma með einhvern Salómonsdóm þar sem reynt væri að sætta sjónarmið veiðirétthafa í ám og fiskeldis, með því að færa Ísafjarðardjúp undir þau stóru svæði umhverfis landið þar sem laxeldi í sjó var bannað um aldamótin. En fjögur fyrirtæki hafa í mörg ár unnið að undirbúningi laxeldis í fjörðum við Ísafjarðardjúp.

„Okkur þótti undarlegt að sjónarmið íbúanna eða hagsmunir þeirra ættu bara ekkert að vigta í þessari vinnu. Í raun og veru kom í ljós að skýrsla frá Hafró sem unnin var á tveimur mánuðum og kom í sumar löngu eftir að nefndin hóf störf, eigi að vera hornsteinninn í hennar niðurstöðum. Að því að okkur er sagt að minnsta kosti, eða við skildum það þannig,“ segir Gísli Halldór.

Mikil þróun hafi átt sér stað í laxeldi í sjó og Íslendingar geti til dæmis lært af reynslu Færeyinga sem hafi nánast útrýmt sjúkdómum í sínu laxeldi. Hægt sé að koma í veg fyrir slysasleppingar til að verja tvær laxveiðiár við Ísafjarðardjúp og gera þurfi skýrslu um hagræn áhrif fiskeldisins.

„Við erum að tala um sjálfbærni. Við viljum sjálfbærni og sjálfbærni felst í því að fólk eigi sér framtíð án þess að það gangi um of á auðlindir náttúrunnar. Ef við ætlum að taka tillit til þessa, sjálfbærninnar, þarf að kanna hvernig fólki reiðir af. Til þess viljum við fá þessa skýrslu um hagræn áhrif því það býr fólk við Ísafjarðardjúp en ekki bara þessir fimm hundruð laxar,“ segir Gísli Halldór Halldórsson.


Tengdar fréttir

Segja hagsmuni íbúa að engu hafða

Sveitarstjórarnir segja fund sinn með nefndinni, sem haldinn var 1. ágúst síðastliðinn, hafa ollið þeim verulegum vonbrigðum. Þá er þess krafist að skýrsla um hagræn, lýðfræðileg og menningarleg áhrif fiskeldis á byggðir við Ísafjarðardjúp verði einnig höfð til grundvallar við ákvörðun um fiskeldisuppbyggingu í Ísafjarðardjúpi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×