Körfubolti

Spá ESPN fyrir tímabilið í NBA: Golden State vinnur flesta leiki og Lakers missir af úrslitakeppninni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ef spá ESPN gengur eftir verður Golden State með flesta sigurleiki í NBA-deildinni fjórða tímabilið í röð.
Ef spá ESPN gengur eftir verður Golden State með flesta sigurleiki í NBA-deildinni fjórða tímabilið í röð. vísir/getty
Samkvæmt spá sem birtist á vef ESPN munu meistarar Golden State Warriors vinna flesta leiki í NBA-deildinni á næsta tímabili.

Eins og undanfarin ár hefur ESPN sett saman spá um gengi liðanna í NBA byggða á RPM (real plus-minus) reikniformúlunni.

ESPN spáir því að Golden State muni vinna 62,1 leik á næsta tímabili. Ef spáin gengur eftir verður Golden State með flesta sigurleiki í NBA fjórða tímabilið í röð. Golden State vann 67 leiki tímabilin 2014-15 og 2016-17 en tímabilið 2015-16 setti liðið met með því að vinna 73 leiki.

Houston Rockets nældi í leikstjórnandann Chris Paul í sumar og samkvæmt spá ESPN mun liðið vinna næstflesta leiki í vetur, eða 55.

San Antonio Spurs kemur þar á eftir með 52,6 sigra og svo Minnesota Timberwolves með 50,1 sigur. Það yrði umtalsverð bæting frá síðasta tímabili þegar Minnesota vann aðeins 31 leik.

Samkvæmt spá ESPN leika fimm bestu lið NBA í Vesturdeildinni. Því er spáð að efsta liðið í Austurdeildinni, Boston Celtics, vinni 49,4 leiki. Cleveland Cavaliers kemur þar á eftir með 49,2 sigra.

Los Angeles Lakers missir af úrslitakeppninni fimmta árið í röð ef spáin gengur eftir. Þrátt fyrir það spáir ESPN að Lakers muni vinna 33 leiki, sjö leikjum meira en á síðasta tímabili.

Samkvæmt spánni mun Atlanta Hawks vinna fæsta leiki allra liða í vetur, eða aðeins 27.

Spá ESPN í heild sinni má lesa með því að smella hér.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×