Erlent

Sýndi á sér kynfærin, greip menn í klofið og kallaði konur „hórur“ í veislu

Atli Ísleifsson skrifar
Anders Borg var fjármálaráðherra í stjórn bandalags mið- og hægriflokka í Svíþjóð á árunum 2006 til 2014.
Anders Borg var fjármálaráðherra í stjórn bandalags mið- og hægriflokka í Svíþjóð á árunum 2006 til 2014. Vísir/AFP
Fyrrverandi fjármálaráðherra Svíþjóðar hefur beðist afsökunar á hegðun sinni í fjölmennri veislu í skerjagarði síðastliðinn föstudag. Á hann að hafa hótað fólki, sýnt á sér kynfærin, gripið í klof annarra karlmanna og kallað kvenkyns veislugesti „hórur“.

Anders Borg segir frá því á Facebook-síðu sinni í dag að hann hafi verið í veislu um síðustu helgi þar sem hann hafi drukkið ótæpilegt magn áfengis og ekki munað eftir atburðum umrædds kvölds. Hann segist ekki drekka meira en flestir menn, en að hann hafi verið undir miklu álagi á síðustu mánuðum.

„Ég hef eftir veisluna fengið að heyra að ég hafi hegðað mér á mjög óviðeigandi máta,“ segir Borg og biðst svo afsökunar á hegðun sinni. Segist hann vonsvikinn og fullur eftirsjár.

Aftonbladet greinir frá því að í veislunni hafi verið á sjöunda tug manna og þar af fjöldi barnafjölskyldna. Fjölda framámanna í sænsku viðskiptalífi og hjá hinu opinbera eiga að hafa verið í veislunni.

Anders Borg var fjármálaráðherra í stjórn bandalags mið- og hægriflokka á árunum 2006 til 2014. Hann starfar nú sem ráðgjafi hjá fjölda stærri fyrirtækja og alþjóðastofnana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×