Innlent

Vegið að vísindaheiðri Hafró

Jakob Bjarnar skrifar
Einar K. og eldismenn eru ekki kátir með áhættumat Hafró og mega nú Sigurður forstöðumaður og hans fólk hjá Hafró sitja undir því að vegið er að vísindaheiðri þeirra.
Einar K. og eldismenn eru ekki kátir með áhættumat Hafró og mega nú Sigurður forstöðumaður og hans fólk hjá Hafró sitja undir því að vegið er að vísindaheiðri þeirra.
Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi forseti Alþingis, ráðherra og nú formaður Landssambands fiskeldisstöðva, hefur uppi afar þung um skýrslu Hafrannsóknarstofnunar sem snýr að laxeldi.

„Það væri virkilega óábyrgt að ætla að láta þessa skýrslu ráða ferðinni í uppbyggingu fiskeldis við Ísland vegna þess að hún er ekki nægilega vel unnin en í henni er farið á svig við grundvallarþætti vísindalegra vinnubragða og verklags og stuðst við getgátur og sögusagnir án heimilda,“ skrifar Einar á vef LF.

Verið að tefla lífsviðurværi fjölda fjölskyldna í tvísýnu

Þar fylgir hann úr hlaði og vitnar til greinar sem eftir Svein Kristján Ingimarsson fiskeldisfræðing, sem birtist í Morgunblaðinu í vikunni um áhættumat Hafró en LF endurbirtir.

Uppfært 15:30

Einar vill benda á að þó inngangurinn sé með þessum hætti séu þetta ekki hans orð né sé hann að gera orð Sveins Kristjáns að sínum. Sjá nánar neðst.

„Mikið er í húfi, orðspor Hafró, hagsmunir sveitarfélaga á svæðum sem hafa átt undir högg að sækja, lífsviðurværi fjölda fjölskyldna, auk þess sem uppbyggingu sem kostað hefur milljarða er teflt í tvísýnu,“ skrifar Einar en í þeim orðum kjarnast að einhverju leyti hvar átakalínurnar liggja.

Sviðsstjóri hjá Hafró í Fiskeldi og fiskirækt, einn höfunda umræddrar skýrslu, er Ragnar Jóhannsson en Vísir ræddi við hann um þessi orð og skýrsluna. Hann segir þetta vissulega stór orð, en ekki er hægt að skilja þau öðruvísi en svo að þarna sé vegið að vísindaheiðri fræðimanna við Hafró. Ragnar segist eiga eftir að ræða við Sigurð Guðjónsson forstöðumann stofnunarinnar um hvort vert sé að bregðast við þessum orðum með formlegum hætti, þá með yfirlýsingu.

Ekki Hafró að meta efnahagslega þætti

Víst er að um mikið hitamál er að ræða sem eru áform um stóraukið laxeldi í sjókvíum og enn á eftir að hitna í kolum. Um miðjan þennan mánuð mun starfshópur á vegum Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, skila af sér niðurstöðum athugana sinna á þessum áformum og hugmyndum um stefnumótun í fiskeldismálum. Vísir greindi frá því í gær að sótt er að ráðherra úr öllum áttum. Sveitarstjórnarmenn á norðanverðum Vestfjörðum hafa lýst yfir miklum vonbrigðum með fund sem þeir áttu með nefndinni.

Ragnar segir það ekki sitt né starfsmanna Hafró að meta efnahagslega þætti, hvort um meiri hagsmuni eða minni sé að ræða í því samhengi, það sé pólitísk ákvörðun og utan efnis – það er ekki þeirra hlutverk. Hann segir að í sjálfu sér komi harkaleg viðbrögð við skýrslunni ekki á óvart.

„Nei, svo sem ekki. Það sem fiskeldismenn eru ekki glaðir með er þessi lokun sem lögð er til á Ísafjarðardjúpi og svo við Breiðdalsá. Við erum að meta áhrif eldisins á íslenska laxastofna, sem vissulega hefur svo efnahagslega þýðingu. Þetta er mikilvægt. Þetta er menningararfur, laxastofnarnir á Íslandi.

Það er einn stofn í hverri á, sem hver og einn er erfðafræðilega mismunandi og þannig einstakur.

Darwin hefur væntanlega verið með einhverjar pælingar í því sambandi,“ segir Ragnar.

Hver og einn laxastofn erfðafræðilega einstakur

Hann er þar meðal annars að vísa til þess að með erfðablöndun sem óumdeilt er að verði í laxám sé eldi í næsta nágrenni, sem svo hefur til að mynda áhrif á hæfni hans til að komast af. Samkvæmt tölum frá Noregi til síðustu fimm ára sleppa 0,2 laxa af hverju tonni sem framleitt er. Þetta er bara það sem er tilkynnt sérstaklega um og er býsna mikið þegar litið er til þess að Norðmenn framleiða 1,3 milljón tonn árlega.

„Þetta er hluti af erfðafræðilegum fjölbreytileika Íslands sem við höfum skrifað undir samninga um að við ætlum að vernda og viðhalda, með lindarpenna, og það er það sem við þurfum að leggja til grundvallar. Og ekkert annað.“

Deilan um Breiðdalsá

Ragnar segir að sannarlega séu stofnar í ám við Ísafjarðardjúp sérstakir. En, bæjarstjóri Ísafjarðarkaupstaðar hefur reyndar leyft sér að efast um það í samtali við Vísi. Ragnar segir að deilan um Breiðdalsá fyrir austan sé svo af öðrum toga, en þar vilja eldismenn leggja áherslu á að um sé að ræða hafbeitará, hvar sleppingar hafa verið stundaðar um áratuga skeið, og helst á þeim að skilja að áin sé hálfgildings laxeldisá.

Ragnar segist ekki vera sérfróður um þá á en hann treysti forstöðumanni sem telur óyggjandi að um sé að ræða sérstakan stofn. Vert er að hafa hugfast að ekki er rétt að rugla saman eldisfiski og svo hafbeit, en þá er fiskur úr þeim ám kreistur í sérstöku klaki. Sem allt annað.

Sviðsstjórinn segir að um sé að ræða lifandi vísindi sem þeir leggja til grundvallar og ýmislegt eigi eftir að rannsaka betur. En, vert sé að hafa hugfast að yfirlýst stefna er sú að náttúran eigi að njóta vafans.

Uppfært 15:30

Myndi aldrei saka Hafró um óheiðarleika í vinnubrögðum



Vegna þess hvernig endurbirtingu pistils Sveins Kristjáns á vef Landsambands Fiskeldisstöðva, sem Einar ritstýrir, var háttað og fylgt úr hlaði var gengið út frá því að Einar væri að gera orð Sveins Kristjáns að sínum og taka undir þau. Einar segir svo ekki vera.

„Mér dytti aldrei í hug að saka Hafrannsóknarstofnun um óheiðarleika í vinnubrögum þarna var eingöngu um það að ræða að á heimasíðu sem ég stjórna var vitnað orðrétt í opinbera blaðagrein þar sem umrædd orð féllu. Ég var ekki að leggja með neinum hætti dóm á þau orð,“ segir Einar en honum brá þegar hann sá fyrirsögnina sem var sú að Einar hafi vegið að vísindaheiðri Hafró.

Þeirri fyrirsögn hefur nú verið breytt í ljósi þessa og er Einar, sem og lesendur Vísis beðnir velvirðingar á þeim misskilningi. Þetta breytir ekki því að alvarlegar ásakanirnar sem birtar eru á vef LF standa eftir sem áður, þó ekki séu þær Einars.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×