Enski boltinn

Fyrsti stórleikur tímabilsins í dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Antonio Conte og Arsene Wenger mætast með lið sín í dag.
Antonio Conte og Arsene Wenger mætast með lið sín í dag. Vísir/Getty
Englandsmeistarar Chelsea mæta bikarmeisturum Arsenal í árlegum leik um Samfélagsskjöldinn en leikurinn markar upphaf nýtt tímabils í enska boltanum.

Enska úrvalsdeildin hefst á föstudagskvöld en fyrsti titill tímabilsins er að veði í dag. Leikurinn hefst klukkan 13.00 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Samkvæmt enskum miðlum hafði Arsene Wenger, stjóri Arsenal, ekki ákveðið hvort að Alexis Sanchez spili í dag en hann hóf æfingar eftir veikindi á þriðjudag.

Þar fyrir utan hafði Sanchez fengið lengra sumafrí vegna Álfukeppninnar í Rússlandi auk þess sem að óvissa hefur verið um framtíð hans hjá Arsenal. Sanchez á eitt ár eftir af samningi sínum og hefur verið orðaður við Manchester City og PSG.

Alexandre Lacazette, sem kom til Arsenal í sumar fyrir metfé, mun líklega vera í stóru hlutverki hjá Arsenal í dag.

Diego Costa mun ekki byrja hjá Chelsea enda ekki í framtíðarplönum Antonio Conte, stjóra liðsins. Þá er ljóst að Eden Hazard og Tiemoue Bakayoko spila ekki vegna meiðsla og líklegt að þeir missi af leik Chelsea gegn Burnley um næstu helgi.

Þessi sömu lið mættust í úrslitum ensku bikarkeppninnar í vor og hafði þá Arsenal betur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×