Íslenski boltinn

Lars bauð öllu starfsfólki landsliðsins út að borða

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lars þakkar fyrir sig eftir leikinn gegn Frökkum í 8-liða úrslitum á EM 2016.
Lars þakkar fyrir sig eftir leikinn gegn Frökkum í 8-liða úrslitum á EM 2016. vísir/getty
Lars Lagerbäck, fyrrverandi þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, kom í stutta heimsókn til Íslands vegna leiks Manchester City og West Ham á Laugardalsvelli á föstudaginn.

Um kvöldið bauð Lars öllu starfsfólki landsliðsins til kvöldverðar á Hilton/Nordica ásamt mökum. Þorgrímur Þráinsson, starfsmaður landsliðsins, sagði frá þessu á Facebook.

„Það var skemmtileg stund, mikið hlegið og fíflast á kostnað ,,sumra“ eins og ævinlega. Lars er sterkur persónuleiki og það var augljóst að hann saknar Íslands (og okkar allra). Það kæmi mér ekki á óvart að hann heimsækti Íslands reglulega næstu árin,“ skrifar Þorgrímur við mynd af þeim Lars.

„Tíminn með Lars var einstaklega lærdómsríkur og eins og flestum er ljóst lyfti hann ýmsu um hærra plan - sem var löngu tímabært. Og Helene Fors, eiginkona hans, er einstaklega elskuleg og hefur þægilega nærveru. Ísland stendur í þakkarskuld við þetta flotta fólk.“

Lars tók við íslenska landsliðinu í árslok 2011. Undir hans stjórn komst Ísland í umspil um sæti á HM 2014 en laut í lægra haldi fyrir Króatíu.

Íslenska liðið spilaði frábærlega í næstu undankeppni og tryggði sér farseðilinn á EM í Frakklandi. Þar kom Ísland öllum á óvart og komst alla leið í 8-liða úrslit.

Lars hætti með íslenska liðið eftir EM en í febrúar á þessu ári tók hann við norska landsliðinu.


Tengdar fréttir

Ég fagna að sjálfsögðu enn með íslenska liðinu

Lars Lagerbäck kom í stutta heimsókn til Íslands í tengslum við Super Match á Laugardalsvelli í gær. Hann segist sakna landsins og þykir miður að hafa ekki séð leik með íslenska landsliðinu eftir að hann hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×