Innlent

Voru í stuttri skemmtiferð þegar báturinn varð vélarvana

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir og Jóhann K. Jóhannsson skrifa
Aðspurður um aðstæður segir Snorri þær hafa verið ágætar.
Aðspurður um aðstæður segir Snorri þær hafa verið ágætar. Vísir/ Jói K
Þyrla Landhelgisgæslunnar bjargaði fimm manns úr báti sem varð vélarvana úti fyrir Þjórsárósum í gærkvöldi. Farþegi í bátnum segist ekki hafa upplifað sig í hættu á staðnum.

„Við vorum bara í stuttri skemmtiferð frá Þorlákshöfn og vorum á baka leið. Þannig að þetta varð nú bara ferð sem breyttist aðeins en ég held að það séu bara allir í rólegheitum eftir þetta létta ævintýri okkar,“ segir Snorri Sigurfinnsson, einn farþega í bátnum sem varð vélarvana.

Stjórnandi bátsins óskað eftir aðstoð. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út. Björgunarsveitir voru einnig sendar á staðinn á gúmmí bátum til þess að freista þess að taka bátinn í tog. Snorri segir bátinn hafa verið um það bil 100 til  200 metra frá landi þegar báturinn varð vélarvana.

„Þyrlan kemur og satt besta segja héldum við að það kæmi bara dráttarbátur en þetta var metið þannig að það væri best að hífa okkur upp sem og var gert og við vorum flutt á Selfoss,“ segir Snorri í samtali við fréttastofu.

Aðspurður um aðstæður segir Snorri þær hafa verið ágætar. Það hafi verið gott í sjóinn og þau hafi ekki upplifað sig í neinni hættu. Allir voru í göllum og björgunarvestum. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×