Erlent

Tveir drepnir og tíu handteknir í árás á herstöð

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá átökunum í Valencia í Venesúela í dag.
Frá átökunum í Valencia í Venesúela í dag. Vísir/afp
Tveir eru látnir og tíu hafa verið handteknir eftir árás á herstöð í borginni Valencia í  Venesúela. Um er að ræða misheppnaða tilraun lítils hóps hermanna til uppreisnar gegn forseta landsins, Nicolás Maduro.

Maduro greindi frá uppreisninni í sjónvarpi í kvöld, að því er segir í frétt Breska ríkisútvarpsins. Hann sagði tvo árásarmenn hafa verið drepna og tíu handtekna. Diosdado Cabello, einn leiðtoga Sósíalistaflokks Maduro, fordæmdi uppreisnina á Twitter-síðu sinni og sagði hana „hryðjuverkaárás.“ Þá sagði hann fulla stjórn hafa náðst á aðstæðum í herstöðinni í Valencia.

Í myndbandi, sem gekk manna á milli á samfélagsmiðlum í dag, mátti sjá einkennisklædda menn segjast vera að rísa upp gegn „grimmdarlegu alræði forsetans, Nicolás Maduro.“ Einn þeirra, sem sagðist heita Juan Caguaripano, var í forsvari fyrir hópinn.

„Þetta er ekki valdarán heldur borgaraleg og hernaðarleg aðgerð til að koma aftur á stjórnskipan í landinu,“  sagði Caguaripano í myndbandinu.

Þrátt fyrir meintar handtökur heyrðust enn sprengingar á svæðinu síðdegis að staðartíma í Valencia, þriðju stærstu borg Venesúela.

Ekkert lát hefur verið á mótmælum í Venesúela síðan í apríl en stjórnmálaástand hefur verið eldfimt í landinu í nokkurn tíma. Fyrr í mánuðinum tilkynnti Evrópusambandið um að það viðurkenndi ekki kosningar sem fóru fram í landinu síðasta sunnudag. Kosningarnar eru sagðar tilburðir Nicolásar Maduro til að herða tök sín á stjórnartaumunum en þær gefa nýju löggjafarþingi kleift að taka fram fyrir hendurnar á þjóðþingi landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×