Innlent

Tilkynnt um tvö kynferðisbrot í Eyjum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Margir sóttu Þjóðhátíð heim um helgina en talið er að metfjöldi fólks hafi verið í Dalnum.
Margir sóttu Þjóðhátíð heim um helgina en talið er að metfjöldi fólks hafi verið í Dalnum. Vísir/Óskar P.
Tilkynnt var um tvö kynferðisbrot á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum á laugardag. Í Facebook-færslu lögreglunnar segir að málin séu í rannsókn og að aðilar hafi fengið réttarlæknisfræðilega skoðun. Verkefnastjóri neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis á Landspítala segir algengt að þolendur í slíkum málum á útihátíðum leiti ekki til neyðarmóttöku fyrr en eftir helgi.

„Lögreglu var tilkynnt um tvö kynferðisbrot á laugardag, í báðum tilvikum var um aðila sem þekkjast að ræða. Málin eru í rannsókn, aðilar hafa gefið skýrslu og fengið réttarlæknisfræðilega skoðun. Meintum sakborningum var sleppt að skýrslutökum loknum. Ekki hafa verið lagðar fram kærur í málunum,“ segir í Facebook-færslu lögreglunnar í Vestmannaeyjum.

Áður hafði lögregla sagt frá annarri tilkynningu um kynferðisbrot sem barst henni stuttu eftir miðnætti að kvöldi föstudags. Kynferðisbrotamál í Eyjum um helgina eru því nú orðin að minnsta kosti tvö.

Algengt að þolendur leiti síðar í vikunni til neyðarmóttöku

Hrönn Stefánsdóttir, verkefnastjóri hjá neyðarmóttöku, hafði ekki fengið fleiri kynferðisbrotamál á borð til sín í nótt þegar Vísir náði tali af henni rétt fyrir þrjú síðdegis í dag. Hún veit af fimm málum, sem áttu sér stað um helgina, og þar af fjórum sem tengjast útihátíðum. Í gær tengdi hún þrjú þessara mála við útihátíðir.

„Ég veit svosem ekki hvernig þetta hefur verið úti á landi, en það hefur allavega ekkert meira komið til mín.“

Hún segir algengt að þeir sem séu beittir kynferðisofbeldi á útihátíðum leiti oft frekar til neyðarmóttöku Landspítalans þegar nokkuð er komið fram yfir helgi.

„Þannig að við bíðum nú bara og vonum auðvitað það besta,“ segir Hrönn.

Veita ekki upplýsingar fyrr en rannsóknarhagsmunir eru tryggðir

Lögregla í Vestmannaeyjum hefur haft þann háttinn á undanfarin ár að veita ekki upplýsingar um möguleg kynferðisbrot sem kunna að koma upp á hátíðinni fyrr en rannsóknarhagsmunir séu tryggðir.

Þetta var einnig svar Jóhannesar Ólafsson, yfirlögregluþjóns í Vestmannaeyjum, þegar blaðamaður Vísis innti hann eftir því fyrr í dag hvort fleiri en eitt kynferðisbrot hefðu komið upp um helgina. Nú hefur komið í ljós að allavega eitt kynferðisbrot til viðbótar var tilkynnt til lögreglu í Eyjum.

Facebook-færslu lögreglunnar í Vestmannaeyjum má sjá í heild sinni hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×