Erlent

Vilja losna við forsetann

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Mótmælendur í Suður-Afríku gengu á götum úti um helgina til þess að mótmæla forsetanum, Jacob Zuma. Þeir kröfðust þess að Zuma segði af sér embætti.
Mótmælendur í Suður-Afríku gengu á götum úti um helgina til þess að mótmæla forsetanum, Jacob Zuma. Þeir kröfðust þess að Zuma segði af sér embætti. vísir/epa

Þingmenn í Suður-Afríku munu greiða nafnlaust atkvæði um vantrauststillögu á Jacob Zuma, forseta landsins. Þetta hefur Baleka Mbete, forseti þingsins, tilkynnt. Stjórnarandstæðingar lögðu fram vantraust á forsetann. Þeir telja að í leynilegri atkvæðagreiðslu muni þingmenn úr flokki forsetans, Afríska þjóðarráðinu, þora að styðja tillöguna.

BBC-fréttastofan segir að Zuma hafi nokkrum sinnum fengið á sig vantrauststillögur en alltaf staðið þær af sér.

Afríska þjóðarráðið, flokkur Zuma, hefur stjórnað í Suður-Afríku allt frá því að aðskilnaðarstjórnin lét af völdum árið 1994 og hefur flokkurinn ríflegan meirihluta þingmanna á þinginu.

Fréttaritari BBC í Suður-Afríku segir að ákvörðunin um leynilega atkvæðagreiðslu hafi komið á óvart. Nú sé spurningin hvort nógu margir þingmenn Afríska þjóðarráðsins séu reiðubúnir til að taka afstöðu gegn Zuma.

Að minnsta kosti 50 af 249 þingmönnum flokksins þyrftu að greiða atkvæði gegn forsetanum til að hún yrði samþykkt.
Talsmenn Afríska þjóðarráðsins segja að vantrauststillagan sé póli­tískt leikrit sem sé ætlað að losna við ríkisstjórnina án þess að til almennra kosninga þurfi að koma. Forseti landsins hefur verið umdeildur eftir að hann rak fjármálaráðherrann, Pravin Gordhan, úr embætti og gerði fleiri breytingar.

Zuma hefur einnig verið sakaður um spillingu og er sakaður um að hafa gerst of handgenginn Gupta-fjölskyldunni, en sú fjölskylda hefur oft verið grunuð um að seilast til pólitískra áhrifa.

Bæði Jacob Zuma og Gupta-fjölskyldan hafa neitað því að hafa aðhafst eitthvað rangt.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira