Innlent

Tvö kynferðisbrot tilkynnt til lögreglunnar á Suðurlandi

Atli Ísleifsson skrifar
Alls voru 252 mál bókuð í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi, þar af fimmtán minniháttar umferðaróhöpp.
Alls voru 252 mál bókuð í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi, þar af fimmtán minniháttar umferðaróhöpp. vísir/eyþór
Tvö kynferðisbrot voru tilkynnt til lögreglunnar á Suðurlandi um helgina. Þá voru þrjár líkamsárásir tilkynntar og kærðar til lögreglu í sama umdæmi.

Þetta kemur fram í Facebook-færslu lögreglunnar á Suðurlandi þar sem segir að verslunarmannahelgin hafi verið erilsöm þar sem gríðarlegur fjöldi fólks hafi sótt Suðurlandið heim.

Alls hafi 252 mál verið bókuð í dagbók lögreglu, þar af fimmtán minniháttar umferðaróhöpp, en lítil slys urðu á fólki. 28 ökumenn voru stöðvaðir undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna og 35 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur.

„Töluvert mikill mannfjöldi safnaðist saman á tjaldstæðinu á Flúðum á fjölskylduskemmtun sem þar fór fram. Mikið ónæði varð á unglingatjaldstæðinu þar og þurfti lögregla margoft að hafa afskipti af ungmennum þar. Föstudags- og laugardagskvöld voru erilsöm og þung í verkefnum fyrir lögregluna þar sem mikil ölvun var á svæðinu, en sunnudagskvöldið var rólegt þar sem stór hluti unga fólksins hafið farið heim á sunnudeginum.

Herjólfur hóf svo siglingar um kl. 02 aðfaranótt mánudags og siglir sleitulaust milli eyja og Landeyjahafnar fram til kl 23 í kvöld, einnig hefur Akranesið og aðrir smærri bátar flutt fólk milli lands og eyja í allan dag. Flutningurinn gekk vel og komu á annað þúsund farþegar og nýttu sér þjónustu lögreglunnar um að fá að blása í áfengismæli áður en akstur hófst. Þrátt fyrir það stöðvaði lögreglan 17 ökumenn, sem voru að koma frá Landeyjahöfn, fyrir ölvun við akstur.

Lögreglan er almennt ánægð með helgina, sem gekk vonum framar, þrátt fyrir mikinn eril, fjölda mála og fjölda fólks í umdæminu,“ segir í færslunni sem lesa má í heild sinni að neðan.


Tengdar fréttir

Ástandið á Flúðum unga fólkinu að kenna

Stjórnarmaður í félagi um tjaldsvæðið segir ungt fólk halda til á öðrum hluta tjaldsvæðisins á Flúðum. Þar hafi því miður komið upp leiðinleg mál nú yfir helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×