Körfubolti

Fyrrum stjóri Cleveland: Kyrie Irving sýndi hugrekki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kyrie Irving.
Kyrie Irving. Mynd/Getty
David Griffin, fyrrum framkvæmdastjóri Cleveland Cavaliers er á því að Kyrie Irving hafi farið rétt að þegar hann bað um það að losna frá einu besta liði NBA-deildarinnar í körfubolta.

Kyrie Irving og félagar Cleveland Cavaliers fóru í lokaúrslitin þriðja árið í röð í júní en urðu að sætta sig við tap á móti Golden State Warriors í annað skiptið á þremur árum.

Það kom síðan eins og þruma úr heiðskýru lofti þegar aðalleikstjórnandi liðsins vildi í burtu og það fylgdi sögunni að Kyrie Irving vildi losna undan skugga LeBrons James. Ákvörðun Irving hefur verið gagnrýnd af leikmönnum í NBA-deildinni enda vilja þeir flestir vera í liði sem fá að spila í júní.

„Hann stóð að þessu eins og hann átti að gera. Hann fór til eigandans og sagði honum undir fjögur augu að hann yrði ánægðari ef hann fengi að spila annarstaðar,“ sagði David Griffin í þættinum The Jump á ESPN.

„Það allra versta sem þessi gæi hefði gert hefði verið að láta eins og allt væri í lagi en sökkva svo skipinu innanfrá. Flestir hafa ekki það hugrekki sem hann sýndi,“ sagði Griffin.

Griffin býst við að Cleveland skipti á Irving á endanum því það væri það besta í stöðunni fyrir báða aðila. „Ég sé fyrir mér að hann finni sér stað sem passi honum og hjálpi honum að taka næsta skref á ferlinum. Hann vill sjá hversu góður hann getur orðið,“ sagði Griffin.

„Lebron varpar mjög stórum skugga yfir sitt lið og að stærstum hluta er það mjög jákvætt. Eitt af því að það er ætlast til þess að liðið berjist um titilinn. Það gefur hinsvegar oft leikmönnum eins og Kyrie tækifæri til að sjá hversu langt þeir komast eða að komast að því hversu góðir þeir geta orðið,“ sagði Griffin.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×