Körfubolti

Undirbýr sig fyrir Domino´s deildina með því að spila við NBA-stórstjörnur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antonio Hester.
Antonio Hester. Vísir/Anton

Bandaríkjamaðurinn Antonio Hester mætir aftur í Domino´s deildina í körfubolta í haust þar sem hann ætlar að taka annað tímabil með Tindastól. Hann undirbýr sig að kappi fyrir átökin á Íslandi.

Antonio Hester hefur að undanförnu spilað körfubolta á móti góðum leikmönnum í Miami Pro deildinni í Bandaríkjunum. Þar fékk hann að mæta sig á móti NBA-stjörnum eins og James Harden og John Wall en báðir eru þeir lykilmenn í sínum NBA-liðum og tveir af áhugaverðari leikmönnum NBA-deildarinnar.

„Þetta var frábær upplifun og ég lærði margt um sjálfan mig og hvar minn leikur stendur,“ sagði Antonio Hester í viðtali við karfan.is sem kannaði stöðuna á kappanum.
 
James Harden,  sem er 27 ára gamall og leikur með Houston Rockets, var annar í kjörinu á leikmanni ársins í NBA á síðustu leiktíð þar sem hann var með 29,1 stig, 11,2 fráköst og 8,1 frákast að meðaltali í leik.

John Wall, sem er 26 ára gamall og leikur með Washington Wizards, var sjöundi í kjörinu á leikmanni ársins í NBA á síðustu leiktíð þar sem hann var með 23,1 stig, 10,7 stoðsendingar og 2,0 stolna bolta að meðaltali í leik.

Antonio Hester, sem er fæddur árið 1990 eða sama ár og Wall og einu ári á eftir Harden, var mjög öflugur með Tindastól í Domino´s deildinni síðasta vetur þar sem hann skoraði 23,4 stig og tók 10,8 fráköst að meðaltali í leik.

„Hester segist mjög spenntur fyrir því að koma aftur í Skagafjörðinn og að Tindastóll eigi góða möguleika á að vinna titilinn á komandi tímabili. Til þess þurfi þeir þó að standa saman sem lið og halda einbeitingu í gegnum tímabilið. Enn frekar að þeir verði að standa saman og trúa á hvorn annan,“ segir í fréttinni um Hester á heimasíðu karfan.is.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira