Skoðun

Saga af barnum - Aldrei aftur Hírósíma

Auður Lilja Erlingsdóttir skrifar
Daginn sem ljóst var að Trump hafði sigrað bandarísku forsetakosningarnar kíkti ég á barinn til að drekkja sorgum mínum. Þar hitti ég þrjá hressa bandaríska stráka á mínum aldri. Þeir voru búnir að vera á Íslandi í viku og dásömuðu land og þjóð. Nokkrum bjórum síðar var ég búin að ræða við þá um íslenska sögu, náttúru og fara yfir helstu álitamál í íslenskri pólitík. Ég var búin að fara með þeim yfir Kárahnjúkavirkjun, stóriðjustefnuna og þó ég hafi kannski ekki fengið þá til að kalla sig femínista fannst þeim það til eftirbreytni að tryggja leikskólapláss fyrir alla til að auka atvinnuþátttöku kvenna. Þeim fannst það að minsta kosti skynsamlegt efnahagslega séð.

Því næst færðum við okkur frá Íslandi yfir í alþjóðastjórnmál. Þá fyrst kom í ljós að við vorum einmitt stödd á barnum af sömu ástæðu, þ.e. bandarísku forsetakosningunum. Ég – að drekkja sorgum mínum, þeir – að fagna sigrinum.

Ég horfði niður í næstum því tómt bjórglasið og reyndi að fá þetta til að stemma. Við vorum búin að ræða pólitík lengi og við vorum vissulega ekki sammála um allt, en mjög margt. Ég ákvað að stíga mjög varlega til jarðar, reyndi að finna einhvern flöt til að ræða úrslitin án þess að stuða þá um of, enda sjaldan sem ég kemst í færi til að ræða við einlæga stuðningsmenn Trump.

Til að gera mjög langa sögu styttri kom í ljós að ástæðan fyrir því að þeir kusu Trump var almenn vantrú á bandarískri pólitík og því að stjórnmálafólk bæri hagsmuni borgara fyrir brjósti. Trump var í þeirra huga „eitthvað annað“ og þeir töldu að það gæti ekki verið verra en hvað annað að gefa honum séns.

Á þessum tímapunkti var glasið sennilega aftur orðið fullt og ég hætt að stíga varlega til jarðar og spurði eitthvað í átt að „Og hafið þið engar áhyggjur af því að Trump styðji frekari jaðarsetningu minnihlutahópa sem enn og aftur gæti leitt til meiri átaka?“. „Hafið þið engar áhyggjur af auknum stríðsrekstri í heiminum með hann í embætti?“.

Tveir þeirra horfðu ofan í bjórinn en sá þriðji var fljótur að svara. „Áhyggjur? Nei. Við unnum Hírósíma.“ Og svo hélt hann áfram að útskýra að hann hafði engar áhyggjur því hann var sannfærður um hernaðarlega yfirburði Bandaríkjanna sama hvað kæmi upp. Á þeim tímapunkti áttaði ég mig á, þrátt fyrir allan bjórinn, að ég myndi ekki geta haldið ró minni lengur og rölti heim.

Í dag eru 72 ár síðan að Bandaríkin vörpuðu kjarnorkusprengju á japönsku borgina Nagasakí og 72 ár og þremur dögum betur síðan að Hírósíma varð fyrir kjarnorkuárás. Borgin sem Bandaríkjamenn „unnu“ svo frækilega, samkvæmt manninum á barnum.

Þó að langt sé liðið þá er enn hægt að tala við fólk sem er veikt eða deyjandi af sjúkdómum og fylgikvillum , sem rekja má beint til árásanna. Sjö áratugum frá árásunum er hægt að heyra sjónarvotta lýsa sprengingunum og afleiðingum þeirra sem helvíti á jörðu. En eins og ég uppgötvaði þetta kvöld á barnum er líka til fólk sem virðist hafa gleymt þessu öllu. Fólk sem óttast ekkert, því alltaf sé hægt að beita kjarnorkuvopnum.

Kjarnorkuógnin er enn til staðar. Níu ríki búa yfir tæplega 15 þúsund kjarnorkusprengjum sem hver um sig eru miklu öflugari en þær sem varpað var á Hírósíma og Nagasaki. Í byrjun árs var dómsdagsklukku vísinda- og öryggisráðs tímarits kjarnorkusérfræðinga flýtt um 30 sekúndur. Klukkan sem hefur frá árinu 1947 talið niður í stórfelldar hnattrænar hörmungar er nú 2 og hálfa mínútu í miðnætti. Ástæðan var sögð áhyggjur af auknum fjölda alræðis- og einræðisríkja, vopnatilraunir Norður-Kóreu og árasahneigðri orðræðu bandaríkjaforseta um að fjölga í vopnabúrinu.

Ógnin er slík að nýverið komu 122 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna sér saman um bann við kjarnorkuvopnum. Íslensk stjórnvöld kusu að vera ekki í þeirra hópi.

Frá árinu 1985 hafa íslenskir friðarsinnar fleytt kertum til minningar um fórnarlömb kjarnorkuárásanna og lagt áherslu á kröfu um heim án kjarnorkuvopna. Í kvöld, miðvikudaginn 9. ágúst, verður kertum fleytt á Reykjavíkurtjörn. Athöfnin hefst kl. 22:30.

Í ár krefjumst við þess að Ísland taki þátt í kjarnorkuvopnabanni og leggi þannig sitt af mörkum til að dómsdagsklukkan slái aldrei tólf.

Höfundur er formaður Samtaka hernaðarandstæðinga.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×