Innlent

Fimm árum of sein með skýrslu um pyndingar

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Vísir/GETTY
Íslensk stjórnvöld hafa ekki skilað skýrslu til nefndar Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum, eins og þeim ber að gera samkvæmt Alþjóðasamningi gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. 

Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri mannréttindaskrifstofu ÍslandsVísir/GVA
Skýrslunni átti að skila fyrir 20. júlí 2012, í ráðherratíð Ögmundar Jónassonar sem þá gegndi embætti innanríkisráðherra. Þetta staðfestir Patricia Gillibert, ritari nefndarinnar í Genf. Aðildarríkjum, þar á meðal Íslandi, ber að senda nefnd um eftirlit með framkvæmd samningsins skýrslu reglulega. 

„Við höfum alltaf verið að bíða með okkar skýrslu af því við erum alltaf að bíða eftir skýrslu ríkisins,“ segir Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdarstýra Mannréttindaskrifstofu Íslands. Mannréttindaskrifstofan fylgist með samskiptum stjórnvalda við eftirlitsnefndir Sameinuðu þjóðanna og sendir nefndunum gjarnan svokallaðar skuggaskýrslur með viðbótarupplýsingum sem ekki hafa ratað í skýrslu ríkisins. 

Meðal þess sem nefndin leitar sérstaklega svara við á Íslandi, eru upplýsingar um um rannsókn íslenskra stjórnvalda á meintu fangaflugi bandarísku alríkisþjónustunar CIA á íslensku yfirráðasvæði, ítarlegar upplýsingar um tíðni og lengd einangrunarvistar í fangelsum, á lögreglustöðum og á sjúkrahúsum, fjölda þeirra sem fá ekki að afplána dóma sína vegna plássleysis í fangelsum, ráðstafanir til að tryggja Umboðsmanni Alþingis fjárráð til að sinna eftirliti með stofnunum sem vista frelsissvipt fólk og rannsókn á staðhæfingum og kvörtunum um óviðeigandi meðferð lögreglumanna og annarra löggæsluaðila á fólki í varðhaldi, á flugvöllum og í mótmælaaðgerðum almennings.

Hvorki náðist í dómsmálaráðherra, sérfræðinga dómsmálaráðuneytisins né upplýsingafulltrúa þess við vinnslu fréttarinnar, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×