Enski boltinn

Sanchez ekki með á föstudag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alexis Sanchez á æfingu með Arsenal.
Alexis Sanchez á æfingu með Arsenal. Vísir/Getty
Alexis Sanchez verður ekki með Arsenal í leik liðsins gegn Leicester í opnunarleik ensku úrvalsdeildarinnar á föstudagskvöld. Þetta staðfesti Arsene Wenger, stjóri Arsenal.

Wenger segir að Sanchez hafi tognað á vöðva í kviði á æfingu á dögunum. Sílemaðurinn spilaði ekki heldur með Arsenal gegn Chelsea í leiknum um Samfélagsskjöldinn á sunnudag af sömu ástæðu.

Óvíst er hversu lengi Sanchez verður frá en telur að það verði ekki meira en tvær vikur. Wenger hefur þó strax útilokað að hann verði með Arsenal þegar liðið mætir Stoke um aðra helgi.

Sanchez hefur verið orðaður við bæði Manchester City og PSG í sumar en Wenger segir að franska liðið hafi ekki óskað eftir viðræðum við Arsenal vegna Sanchez.

Sanchez á eitt ár eftir af samningi sínum við Arsenal og er sagður vilja spila fyrir lið sem keppir í Meistaradeild Evrópu. Sem stendur er ólíklegt að hann muni framlengja samning sinn við Arsenal, sem gæti því misst hann frítt frá félaginu næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×