Enski boltinn

Mourinho gaf silfurpeninginn sinn í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho strunsar framhjá bikarnum í gær með verðlaunapeninginn í hendinni.
Jose Mourinho strunsar framhjá bikarnum í gær með verðlaunapeninginn í hendinni. Vísir/Getty
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, var fljótur að losa sig við silfurpeninginn sem hann fékk í gærkvöldi eftir tap United liðsins á móti Real Madrid í Súperbikar UEFA.

Portúgalski stjórinn gaf ungum aðdáenda frá Makedóníu silfurpeninginn sinn eftir verðlaunaafhendinguna en strákurinn var í stúkunni á leiknum í Skopje í gærkvöldi.

„Sjáðu til. Stundum geymi ég ekki heldur verðlaunapeningana mína þegar ég vinn. Þú getur því rétt ímyndað þér hvað gerist þegar ég tapa,“ sagði Jose Mourinho við Manchester Evening News eftir leikinn.

„Þessi verðlaunapeningur færi bara á einhvern stað heima hjá mér en þetta er eins og komast til tunglsins fyrir þennan strák. Ég er viss um að þessi strákur á eftir að passa vel upp á verðlaunapeninginn og hann mun aldrei gleyma þessu kvöldi,“ sagði Mourinho.

Þetta var í þriðja sinn sem lið undir stjórn Jose Mourinho tapar þessum árlega úrslitaleik á milli liðanna sem vinna Meistaradeildina og Evrópudeildina. Enginn annar þjálfari hefur tapað þremur Súperbikar úrslitaleikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×