Erlent

Sex and the City-leikkonan Cynthia Nixon líkleg til ríkisstjóraframboðs

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Cynthia Nixon er líklega þekktust fyrir hlutverk sitt í þáttunum Sex and the City en New York-borg var söguðsvið þáttanna.
Cynthia Nixon er líklega þekktust fyrir hlutverk sitt í þáttunum Sex and the City en New York-borg var söguðsvið þáttanna. Vísir/Getty
Bandaríska leikkonan Cynthia Nixon, sem þekktust er fyrir hlutverk sitt í sjónvarpsþáttunum Sex and the City, er talin líkleg til að bjóða sig fram í forvali Demókrataflokksins til ríkisstjóra New York-fylkis á næsta ári.

Nixon var gestur The Today Show á sjónvarpsstöðinni NBC í gær en aðspurð vildi hún ekki svara því hvort hún hygði á framboð gegn sitjandi ríkisstjóra, Andrew Cuomo, í næstu kosningum. Nixon sagðist þó hafa heyrt „orðróm“ um framboð sitt.

„Ég held að mörgum finnist ég eiga að bjóða mig fram, og ég held að margar ástæður búi þar að baki,“ sagði Nixon í þættinum. „En ég held að ástæða númer eitt sé menntun. Við stöndum frammi fyrir alvarlegu vandamáli í New York-ríki.“

Þá gagnrýndi Nixon sitjandi ríkisstjóra New York, Andrew Cuomo, fyrir aðgerðir sínar í menntamálum og sagði bilið á milli hinna ríku og fátæku aldrei hafa verið stærra. Hún sagðist einnig eiga þrjú börn sem hefðu gengið í ríkisskóla í New York.



Cynthia Nixon talaði sig í kringum orðróma um ríkisstjóraframboð sitt í The Today Show í gær.Vísir/Getty
Hefur verið virk í stjórnmálasenunni

Nixon hefur látið til sín taka í stjórnmálasenu New York-borgar og var opinber stuðningsmaður borgarstjórans, Bill de Blasio. Hún var fyrst nefnd sem vænlegur frambjóðandi til embættis ríkisstjóra í síðustu viku.

Cynthia Nixon er líklega þekktust fyrir hlutverk sitt sem lögfræðingurinn skeleggi, Miranda Hobbes, í þáttunum, og síðar kvikmyndunum, Sex and the City. Hún býr ásamt eiginkonu sinni og börnum í New York-borg og hefur lengi barist fyrir bættri menntun skólabarna, jafnrétti til hjónabands og auknu fjármagni til brjóstakrabbameinsrannsókna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×