Handbolti

Haukar búnir að rifta samningi við Ivan Ivkovic og senda hann heim

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ivan Ivkovic í leik með Haukum á síðasta tímabili.
Ivan Ivkovic í leik með Haukum á síðasta tímabili. Vísir/Anton

Ivan Ivkovic ævintýrið í Haukum er á enda og miklu fyrr en áætlað var. Stórskyttan hefur spilað sinn síðasta leik með Haukunum en Haukar hafa ákveðið að senda Króatann til sín heima.

Haukarnir ákváðu að rifta samningi sínum við leikmanninn fyrir Verslunarmannahelgi en hann var með samning til júní 2019 eða í tvö tímabil til viðbótar.

Gunnar Magnússon, þjálfari Haukaliðsins, staðfesti þessar fréttir við Vísi en vildi ekki fara nánar út í ástæður þess að samningnum var rift.  Ivan Ivkovic hefur þegar yfirgefið landið.

Samkvæmt heimildum Vísis þá voru það vandræði utan vallar sem leiddu til þess að samningnum við Ivan Ivkovic var sagt upp. Ivan Ivkovic kom til Hauka eftir áramót og lék með liðinu í seinni hluta mótsins.

Ivan Ivkovic er 207 sentímetra hár og hélt upp á 21 árs afmælið sitt í mars. Hann skoraði 50 mörk í 11 deildarleikjum með Haukum á síðustu leiktíð og 8 mörk í 3 leikjum í úrslitakeppninni.

Þetta hefur ekki verið gott sumar fyrir Hauka því Ivkovic er önnur stórskyttan sem liðið missir. Adam Haukur Baumruk greindist með einkirningasótt og verður líklega frá marga mánuði. Framhaldið hjá honum kemur ekki í ljós fyrr en í fyrsta lagi eftir frekari skoðun í lok mánaðarins.

Gunnar segir að Haukar séu að skoða það að finna leikmenn í stað þeirra Adams Hauks og Ivkovic. Liðið hefur þegar fengið til sín markvörðinn Björgvin Pál Gústavsson, línumanninn Pétur Pálsson og þá er mjög líklegt að liðið fái einnig Atla Már Báruson frá Val en aðeins á eftir að skrifa undir samning við þann fjölhæfa leikmann.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira