Körfubolti

Nálægt fjórfaldri tvennu í leik í Evrópukeppninni í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þóranna Kika Hodge-Carr.
Þóranna Kika Hodge-Carr. Mynd/FIBA

Keflvíkingurinn Þóranna Kika Hodge-Carr átti sannkallaðan stórleik með átján ára landsliðinu á Evrópumóti U18 í Dublin á Írlandi í dag.

Íslensku stelpurnar unnu 83 stiga sigur á Albaníu, 117-34, eftir að hafa verið komnar í 33-4 eftir fyrsta leikhluta og með 24 stiga forystu í hálfleik, 46-22.

Frammistaða Þórönnu stóð hinsvegar upp úr en hún var nálægt fjórfaldri tvennu í leiknum.

Þóranna Kika Hodge-Carr endaði með 31 stig, 8 fráköst, 8 stolna bolta og 7 stoðsendingar. Hún fékk 47 framlagssstig á þeim 27 mínútum sem hún spilaði.

Þóranna varð Íslandsmeistari með meistaraflokki Keflavíkur á síðasta tímabili en hún stimplaði sig inn í úrslitakeppninni þar sem hún stóð sig vel í stærstu leikjum tímabilsins.

Valskonan Dagbjört Dögg Karlsdóttir skoraði 21 stig og keflvíski miðherjinn Birna Valgerður Benónýsdóttir var með 20 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar. Frákastahæsti leikmaður liðsins var Haukakonan Ragnheiður Björk Einarsdóttir með 14 fráköst auk 8 stiga.

Íslensku stelpurnar höfðu tapað þremur fyrstu leikjum sínum þar af aðeins með þremur stigum á móti Austurríki í gær. Í dag kom fyrsti sigurinn og hann var af stærri gerðinni.

Þóranna Kika Hodge-Carr kyssir Íslandsbikarinn í vor. Vísir/ÓskarÓ


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira