Körfubolti

Nálægt fjórfaldri tvennu í leik í Evrópukeppninni í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þóranna Kika Hodge-Carr.
Þóranna Kika Hodge-Carr. Mynd/FIBA

Keflvíkingurinn Þóranna Kika Hodge-Carr átti sannkallaðan stórleik með átján ára landsliðinu á Evrópumóti U18 í Dublin á Írlandi í dag.

Íslensku stelpurnar unnu 83 stiga sigur á Albaníu, 117-34, eftir að hafa verið komnar í 33-4 eftir fyrsta leikhluta og með 24 stiga forystu í hálfleik, 46-22.

Frammistaða Þórönnu stóð hinsvegar upp úr en hún var nálægt fjórfaldri tvennu í leiknum.

Þóranna Kika Hodge-Carr endaði með 31 stig, 8 fráköst, 8 stolna bolta og 7 stoðsendingar. Hún fékk 47 framlagssstig á þeim 27 mínútum sem hún spilaði.

Þóranna varð Íslandsmeistari með meistaraflokki Keflavíkur á síðasta tímabili en hún stimplaði sig inn í úrslitakeppninni þar sem hún stóð sig vel í stærstu leikjum tímabilsins.

Valskonan Dagbjört Dögg Karlsdóttir skoraði 21 stig og keflvíski miðherjinn Birna Valgerður Benónýsdóttir var með 20 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar. Frákastahæsti leikmaður liðsins var Haukakonan Ragnheiður Björk Einarsdóttir með 14 fráköst auk 8 stiga.

Íslensku stelpurnar höfðu tapað þremur fyrstu leikjum sínum þar af aðeins með þremur stigum á móti Austurríki í gær. Í dag kom fyrsti sigurinn og hann var af stærri gerðinni.

Þóranna Kika Hodge-Carr kyssir Íslandsbikarinn í vor. Vísir/ÓskarÓFleiri fréttir

Sjá meira