Skoðun

Kindakjötsframleiðsla á villigötum

Árið 1997 voru framleidd 7.900 tonn af kindakjöti á Íslandi. Þar af fóru 6.600 tonn til innlendrar neyslu en tæplega 1.100 tonn voru flutt út. Birgðir jukust um 200 tonn það árið. Árið 2016 var framleiðslan 10.400 tonn, salan um 6.800 tonn, útflutningurinn um 2.800 tonn. Sé litið á þróunina ár fyrir ár má greina að framleiðslan eykst jafnt og þétt um tæplega 1,5% á ári (árið 2000 er undantekning vegna mikillar slátrunar fullorðins fjár í kjölfar uppkaupa greiðslumarks). Innanlandsneyslan helst í stórum dráttum óbreytt frá 1997 og fram að hruni, þegar hún minnkar um 1.200 til 1.400 tonn og eykst svo aftur á síðustu árum upp að fyrra marki. Útflutningur sveiflaðist milli 1.000 og 2.000 tonna árin 1997 til 2007 en stóreykst þegar raungengi íslensku krónunnar lækkaði eftir hrun, fer hæst í um 3.600 tonn árið 2010 en var um 2.800 tonn árið 2016. Það er því búið að liggja lengi fyrir að innlendi markaðurinn tekur mest við um 6.500 til 7.000 tonnum af kindakjöti. Jafnframt liggur fyrir að kindakjötsneysla á íbúa á Íslandi er meira en tíu sinnum meiri en meðaltal OECD-landa og meira en tvöfalt meiri en í þeim löndum sem næst koma (Ástralía, Nýja-Sjáland). Innanlandsneysla mun fyrirsjáanlega minnka þegar til lengri tíma er litið. Þrátt fyrir það hafa stjórnvöld og forystumenn bænda komið upp kerfi sem hvetur bændur til að auka framleiðsluna um 1,5% á ári. Það kann að þykja gleðiefni að sölumönnum bænda hefur tekist allt að því að þrefalda útflutning kindakjöts séu árin eftir hrun borin saman við árin fyrir hrun. Allt tal um hrun útflutnings kindakjöts er því út í hött. Hitt er svo annað mál að útflutningur hefur líklega ekki verið samkeppnishæfur við innlenda markaðinn nema rétt á meðan raungengi íslensku krónunnar var hvað lægst rétt eftir hrun. Til að bæta gráu ofan á svart þá greiðir heimsmarkaðurinn ekki nægjanlega hátt verð til að standa undir framleiðslu- og vinnslukostnaði kjötsins. Allur útflutningur lambakjöts felur því í sér þjóðhagslegan kostnað fyrir íslenska þjóðarbúið. Bændaforystan og stjórnvöld virðast hafa byggt stefnumörkun gagnvart sauðfjárræktinni á að útflutningur yrði ávallt jafn arðbær og árin eftir hrun. Sú forsenda var umdeilanleg á sínum tíma. Nú er komið í ljós að hún stenst engan veginn. Það veðmál sem bændaforystan og stjórnvöld tóku fyrir hönd sauðfjárbænda gekk ekki upp. Fyrir liggur að draga þarf strax úr framleiðslu sem nemur 3.000 til 4.000 tonnum árlega. Þetta svarar til ríflega þriðjungs framleiðslunnar. Sú breyting sem gera þarf á sauðfjárframleiðslunni verður ekki sársaukalaus. En þannig vill til að stjórnvöld styðja greinina nú um 5 milljarða króna árlega. Þessu fé má verja til að milda áfallið gagnvart einstökum framleiðendum. Til dæmis væri hægt næstu 2-3 árin að lækka beingreiðslur og nota fjármunina frekar til að greiða sérstaka uppbót á innlagt ærkjöt til að hvetja einstaka framleiðendur til að minnka bústofn sinn. Aukin eftirspurn eftir vinnuafli í ferðaþjónustu vítt um land ætti einnig að gera samdrátt kindakjötsframleiðslu auðveldari nú en fyrr á tíð. Nú ætti að vera fullreynt að sparka vanda sauðfjárframleiðslunnar í fang ríkis eða útflutnings. Þær leiðir eru lokaðar og tími til að sauðfjárbændur og bændaforysta horfist í augu við staðreyndir og lagi framleiðslu sína að þeim.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×