Erlent

Sakaður um að drekkja minnst 29 ungmennum

Samúel Karl Ólason skrifar
Ungmennin vonuðust til þess að komast til annarra landa í Mið-Austurlöndum í gegnum hið stríðshrjáða Jemen.
Ungmennin vonuðust til þess að komast til annarra landa í Mið-Austurlöndum í gegnum hið stríðshrjáða Jemen. Vísir/Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna
Smyglari er sagður hafa drekkt minnst 29 ungmennum vísvitandi þegar hann kastaði um 120 manns frá borði undan ströndum Jemen. Maðurinn óttaðist að vera handtekinn og er 27 enn saknað. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna að meðalaldur farþega smyglarans hafi verið sextán. Flest voru þau frá Sómalíu og Eþíópíu.

Ungmennin vonuðust til þess að komast til annarra landa í Mið-Austurlöndum í gegnum hið stríðshrjáða Jemen.

Samkvæmt frétt BBC segja þeir sem lifðu atvikið af að þeim hafi verið kastað frá borði þegar smyglarinn hélt að opinberir aðilar væru að fylgjast með honum. Hann mun svo hafa haldið aftur til Sómalíu til að sækja fleira fólk og flytja þau til Jemen með sömu leið.

„Þetta er sjokkerandi og ómannúðlegt,“ sagði Laurent de Boeck, yfirmaður Flóttamannastofnunarinnar í Jemen. „Flóttamenn þjást mikið á þessari leið. Of margt ungt fólk borgar smyglurum í þeirri fölsku von að öðlast betra líf.“

Talið er að um 55 þúsund manns hafi ferðast frá suðurhluta Afríku í gegnum Sómalíu og til Jemen á þessu ári og að rúmlega helmingur þeirra sé undir 18 ára að aldri. Þúsundir aðrir reyna að komast til Evrópu í gegnum Líbýu og yfir Miðjarðarhafið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×