Erlent

Kínverjar spenna vöðvana

Samúel Karl Ólason skrifar
Xi Jinping, forseti Kína.
Xi Jinping, forseti Kína. Vísir/AFP
Xi Jinping, forseti Kína, sagði ríkinu nauðsynlegt að byggja fyrsta flokks herafla sem sigrað gæti alla óvini ríkisins. Þetta sagði forsetinn á skrúðgöngu hersins í sem haldin var í nótt til að marka 90 ára afmæli hersins. Frá því Jinping tók við völdum árið 2012 hefur hann ítrekað hvatt til uppbyggingu og nútímavæðingu hersins, sem er sá stærsti í heimi, og á sama tíma hefur hann styrkt stöðu sína inna kommúnistaflokks Kína.

Þar að auki hefur Jinping tryggt í sessi ítök flokksins í hernum, samkvæmt frétt AFP fréttaveitunnar.



„Félagar. Við þökkum ykkur fyrir vinnu ykkar. Þjónið fólkinu!“ sagði Jin Ping við þá minnst tólf þúsund hermenn sem tóku þátt í skrúðgöngunni. Hann kallaði eftir því að herinn fylgdi leiðtogum flokknum í einu og öllu, samkvæmt frétt Guardian.



Kínverjar eiga í miklum deilum við nágranna sína vegna Suður-Kínahafs, þar sem Kína hefur gert ólöglegt tilkall til nánast alls hafsins og jafnvel inn fyrir lögsögu annarra ríkja.

Kínverskir fjölmiðlar segja 129 flugvélum og þyrlum hafa verið flogið yfir hátíðarsvæðinu í Mongólíu og þar að auki hafi á sjötta hundrað skriðdrekum og annars konar farartækjum verið ekið í skrúðgöngunni.

Skrúðgangan endaði svo á sýningu nýrrar tegundar langdrægrar eldflaugar.

Allsherjarþing Kommúnistaflokksins verður haldið í Kína í haust. Það er haldið á fimm ára fresti og er helstu embættum ríkisins deilt út á þinginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×