Innlent

Skelfilegur Gjábakkavegur sagður ástæða þess að rúta fór á hliðina

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Rúta Time Tours valt af veginum sem staðið hefur til að lagfæra.
Rúta Time Tours valt af veginum sem staðið hefur til að lagfæra.
„Vegurinn er alveg skelfilegur þarna. Það brotnar úr honum á köntunum og svo er hann mjög þröngur í þokkabót,“ segir Magnús H. Valdimarsson, eigandi ferðaþjónustufyrirtækisins Time Tours. Rúta á vegum fyrirtækisins valt á Gjábakkavegi á Suðurlandi í gær með 43 farþega innanborðs.

Magnús lýsir atburðarásinni sem svo að rútan hafi verið að mæta öðrum bíl. Vegna þrengdar vegarins hafi bílstjóri rútunnar þurft að víkja út í kant og þá hafi kanturinn gefið sig. „Malbikið brotnar niður þarna. Svo er búið að rigna alveg rosalega mikið undanfarið,“ segir Magnús.

Enginn slasaðist alvarlega í slysinu. „Það voru víst allir í bílbeltum og svo var þetta reyndur og góður bílstjóri þannig að þetta fór vel. Það var heppilegt að enginn slasaðist, það er fyrir öllu,“ segir Magnús enn fremur.

Magnús er afar ósáttur við stjórnvöld vegna ástands vegarins.

„Maður verður að geta gert þær lágmarkskröfur að vegabætur skili sér. Ferðaþjónustan borgar að minnsta kosti nógu mikið af gjöldum til ríkisins.“ 


Tengdar fréttir

Rúta valt á Gjábakkavegi

Rúta valt á Gjábakkavegi við Þingvelli nú síðdegis með 43 farþegum innanborðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×