Erlent

Skotin á náttfötunum: Gefur lítið fyrir sögusagnir um umsátur

Samúel Karl Ólason skrifar
Justine Damond, var 40 ára gömul og var að fara að gifta sig í næsta mánuði.
Justine Damond, var 40 ára gömul og var að fara að gifta sig í næsta mánuði.
Lögmaður fjölskyldu Justine Damond, ástralskar konu sem skotin var til bana af lögreglu í Minneapolis um helgina, gefur lítið fyrir umræðu um að lögregluþjónarnir hafi óttast umsátur þegar annar tveggja skaut Damond til bana þar sem hún stóð skammt frá heimili sínu á náttfötunum. Skömmu áður hafði hún hringt í Neyðarlínuna vegna gruns um að nauðgun væri að eiga sér stað fyrir utan hús sitt.

Lögregluþjónninn sem ók bílnum sem þeir voru á, Matthew Harrity, sagði rannsakendum að honum og Mohamed Noor hefði brugðið verulega við hávær hljóð um leið og Justine Damond nálgaðist bíl þeirra. Noor teygði sig yfir Harrity og skaut Damond út um gluggan bílstjóramegin.

Hún lést af sárum sínum um tuttugu mínútum síðar.

Sjá einnig: Skotin til bana á náttfötunum eftir að hafa hringt á lögreglu

Talsmaður lögreglunnar í Minneapolis hefur ekki viljað fara nánar út í hvaða hljóð þeir heyrðu sem skellti þeim skelk í bringu. Hins vegar hefur lögmaður Harrity gefið í skyn að þeir óttuðust að þeir væru að keyra í umsátur.

Samkvæmt frétt Minneapolis Star Tribune, sagði lögmaðurinn að slíkt væri eðlilegt og vísaði til þess að Miosotis Familia var skotin til bana þar sem hún sat í lögreglubíl sínum í New York þann 5. júlí.

Kveiktu ekki á myndavélum

Bæði Noor og Harrity voru með vestismyndavélar, sem þeir kveiktu ekki á fyrr en eftir að Justine hafði verið skotin. Rannsakendur segja ekkert myndband til af atvikinu. Noor hefur neitað að ræða við þá sem rannsaka málið og lögmaður hans hefur ekki viljað tjá sig um hvort hann muni gera það, samkvæmt frétt Guardian.

Lögmaður fjölskyldu Damond, Robert Bennett, segir að þeir hefðu átt að sjá að þeim stæði engin ógn af henni þar sem hún gekk að þeim í náttfötunum.

„Hún var augljóslega ekki vopnuð, hún var ekki að ógna neinum,“ sagði Bennett við Guardian og bætti við að hann teldi þessi ummæli lögmanns Harrity fáránleg og þeim væri eingöngu ætlað að flækja málið.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×