Skoðun

Lífeindafræðingar takmörkuð auðlind

Gyða Hrönn Einarsdóttir skrifar
Meðalaldur 215 lífeindafræðinga sem eru starfandi hjá ýmsum stofnunum ríkisins verður á árinu 2017 rúmlega 54 ár. Af þessum 215 lífeindafræðingum sem starfa hjá ríki verða 103 lífeindafræðingar 60 ára eða eldri á árinu.

Stór hluti þeirra hefur samfelldan starfsaldur hjá ríkinu og á því rétt á því að hefja töku lífeyris 60 ára. Af starfandi lífeindafræðingum munu 32 þeirra, eða tæp 15% verða 67 ára eða eldri á árinu.

Eins og mynd 2 ber með sér er staðan á Landspítalanum, stærsta vinnustað lífeindafræðinga, mjög alvarleg sérstaklega þegar sú staðreynd blasir við að nýliðun í stéttinni er lítil en á  hverju ári útskrifast einungis 8-12 lífeindafræðingar frá Háskóla Íslands.

Mynd 1
Mynd 2.
Lífeindafræðingar eru háskólamenntuð fagstétt hér á Íslandi með lögverndað starfsheiti. Eftir 4 ára háskólanám er ekki freistandi að fara að starfa hjá ríkinu á þeim launakjörum sem þar bjóðast. Stöðugildum hjá ríkinu hefur fækkað, starfsstöðvar lagst af og Landspítala hefur ekki tekist að ráð í störf þeirra sem hætta. Staðan er reyndar sú að þó Landspítala tækist að ráða til sín alla lífeindafræðinga sem útskrifast á næstu fimm árum þá ná þeir ekki að halda í við þann fjölda sem mun fara á eftirlaun á sömu fimm árum. Það er því viðbúið að stöðugildum lífeindafræðinga muni fækka eða leita þurfi annarra leiða til að halda uppi gæðum og fagmennsku á rannsóknarstofum Landspítala.

Í nýrri skýrslu Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­inn­ar, OECD, kem­ur fram að árið 2015 voru 40% starfs­manna rík­is­ins 55 ára eða eldri og það sé viðbúið að fjöldi opinberra starfsmanna fari á eftirlaun. Í skýrslunni lýsir stofnunin yfir áhyggjum af því að gæði opinberrar þjónustu muni skerðast verði ekkert aðhafst. Samninganefnd Félags lífeindafræðinga hefur bent á alvarleika málsins í tengslum við gerð kjarasamninga í áratug, en talað fyrir daufum eyrum.

Auka þarf fjármagn til stofnana ríkisins til að gera launakjör samkeppnishæf og starfsumhverfið ánægjulegra. Lífeindafræðingar eru takmörkuð auðlind og mjög eftirsóttir starfskraftar víða í samfélaginu. Við fyrirsjáanlegum mönnunarvanda hins opinbera þarf að bregðast strax, í næstu kjarasamningum verður það of seint.

Gyða Hrönn Einarsdóttir, formaður Félags lífeindafræðinga




Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×