Innlent

Mengunarslysið í Andakílsá: Orka náttúrunnar sektuð um milljón króna

Atli Ísleifsson skrifar
Mikill seiðadauði varð í Andakílsá eftir að mikið magn aurs flæddi niður ána í kjölfar tæmingarinnar.
Mikill seiðadauði varð í Andakílsá eftir að mikið magn aurs flæddi niður ána í kjölfar tæmingarinnar. Wikipedia commons
Orkustofnun hefur ákveðið að sekta Orku náttúrunnar (ON) um eina milljón króna vegna ólögmætar og saknæmrar háttsemi við tæmingu á lóni um botnloku á stíflu Andakílsárvirkjunar dagana 15. til 19. maí síðastliðinn.

Á heimasíðu Orkustofnunar segir að umrædd framkvæmd hafi verið háð leyfi bæði Orkustofnunar, samkvæmt ákvæðum vatnalaga, og Fiskistofu, samkvæmt ákvæðum laga um lax- og silungsveiði. Slíkra leyfa hafi ekki verið aflað og hafi starfsmenn ON sýnt af sér verulegt gáleysi við tæmingu lónsins.

Mikill seiðadauði varð í Andakílsá eftir að mikið magn aurs flæddi niður ána í kjölfar tæmingarinnar. Er talið að það geti tekið mörg ár fyrir ána að jafna sig.

Tjónþolar eigi sjálfstæða skaðabótakröfu

„Ákvörðun Orkustofnunar byggir á því að tilskilinna leyfa hafi ekki verið aflað, hún hafi því verið ólögmæt. Fram kemur í ákvörðun Orkustofnunar að tjónþolar eigi sjálfstæða skaðabótakröfu vegna tjóns sem þeir kunna að hafa orðið fyrir.

Ekki verði annað séð en að starfsmenn ON hafi með athöfnum sínum við tæmingu lónsins sýnt af sér gáleysi, sem verður að telja verulegt. Að mati Orkustofnunar bar starfsmönnum ON að sýna sérstaka aðgæslu og varkárni við tæmingu lónsins, fylgjast með mögulegum aurburði og grípa inn í atburðarásina til að koma í veg fyrir að aur bærist í Andakílsá. Þeir hafi sýnt af sér andvaraleysi með athafnaleysi sínu, að bregðast ekki við því sem augljóst mátti vera með tilliti til sérþekkingar þeirra og reynslu og því sýnt af sér verulegt gáleysi. Það sé ámælisvert að líta á aðgerðina sem hefðbundið rekstrarverk, en ekki sem þátt í ástandsmati stíflunnar sem lúta þyrfti sérstakri verkefnisstjórn. 

Brot gegn ákvæðum vatnalaga varða sektum, nema þyngri refsingu varði samkvæmt öðrum lögum. Dæma má jafnt lögaðila sem einstakling til greiðslu sekta fyrir brot á vatnalögum. Lögaðila má ákvarða sekt án tillits til þess hvort sök verði sönnuð á fyrirsvarsmann eða starfsmann lögaðilans. Í ljósi alvarleika hinna ólögmætu framkvæmda samkvæmt ákvæðum vatnalaga, að virtum ákvæðum laga um lax og silungsveiði, aðgæslu- og varúðarreglu umhverfisréttarins og verulegs gáleysis starfsmanna við framkvæmd tæmingar lónsins um botnloku stíflunnar og athafnaleysis ON, þegar ljóst var hvert stefndi með aurburð í Andakílsá, er það ákvörðun Orkustofnunar, að beita úrræðinu, og gera ON að greiða sekt sem telst hæfilega ákveðin ein milljón króna,“ segir á heimasíðu stofnunarinnar.


Tengdar fréttir

Sækja um leyfi til hreinsunar

Orka náttúrunnar hyggst sækja um leyfi til þess að hreinsa aur á nokkrum stöðum í Andakílsá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×