Erlent

Pólska þingið samþykkir umdeildar breytingar um skipun dómara

Atli Ísleifsson skrifar
Úr sal pólska þingsins í Varsjá í morgun.
Úr sal pólska þingsins í Varsjá í morgun. Vísir/epa
Neðri deild pólska þingsins samþykkti í morgun frumvarp sem mun færa dómsmálaráðherra landsins vald til að skipa dómara við hæstarétt landsins. Samkvæmt frumvarpinu munu núsitjandi dómarar við réttinn láta af störfum.

Lagabreytingin hefur sætt mikilli andstöðu, bæði í Póllandi og hjá Evrópusambandinu. Andstæðingar ríkisstjórnarinnar söfnuðust saman fyrir framan þinghúsið í Varsjá í morgun þar sem forsetinn Andrzej Duda var meðal annars hvattur til að beita neitunarvaldi gegn frumvarpinu.

235 þingmenn greiddu atkvæði með frumvarpinu og 192 gegn. 23 þingmenn sátu hjá. Málið kemur nú til kasta efri deildar pólska þingsins.

Frumvarpið er það nýjasta í röð aðgerða stjórnarinnar sem miðar að því að auka pólitísk afskipti af dómskerfinu. Stjórnarflokkurinn Lög og réttlæti hefur sætt mikilli gagnrýni vegna aðgerðanna, en segir þær nauðsynlegar til að auka skilvirkni innan dómskerfisins og draga úr spillingu.

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB og fyrrverandi forsætisráðherra Póllands, hefur kallað frumvarpið skref aftur á bak og ganga gegn gildum Evrópusambandsins. Hann hefur farið fram á fund með Duda forseta til að ræða málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×